131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[19:16]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Þessi ræða staðfestir það að stjórnarandstaðan er algjörlega klofin í málinu þótt hún flytji þessa tillögu saman. Hún talar svo eins og þeir séu einhuga í þessu máli. Þetta átti að vera eina málið sem þeir hefðu komið sér saman um hér á þingi.

Nú segir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að hann styðji ekki ályktun 1546. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Jú, jú.) Þú sagðir það víst. Þú getur þá leiðrétt það hér (SJS: Ég sagði að hún væri gölluð. Reyndu nú einu sinni að hafa rétt ...) á eftir. (SJS: Ég sagði að hún væri gölluð.) Hv. þingmaður getur þá komið hér og sagt frá stuðningi sínum við þessa ályktun.

Þetta er náttúrlega alveg með eindæmum. Ef hv. þingmaður styður þessa ályktun, getur hann þá ekki sagt það? Getur hann ekki einhvern tíma skýrt frá því hver sé afstaða þessa flokks hans í einstökum málum? Hann kemur hér skipti eftir skipti í máli eftir máli og segir frá því hvað hann hafi á móti þessu og á móti hinu. Hann setur út á stefnu annarra stjórnmálaflokka en eyðir næstum engum tíma í að gera grein fyrir því hvað hann vill í einstökum málum, t.d. í sambandi við Íraksmálið. Hvað vildi hann gera?

Hann vildi ekki viðskiptaþvinganir. Hann vill ekki styðja samþykktir Sameinuðu þjóðanna að því er varðar viðskiptabann. Ef hann styður ályktun 1546, getur hann þá ekki komið hér og sagt það?