131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[19:17]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Maður á ekki að þurfa að eyða naumum ræðutíma sínum í að leiðrétta útúrsnúninga hjá fullheyrandi mönnum. (Gripið fram í.) Ég sagðist telja ályktun 1546 gallaða (Forsrh.: Styður þú hana ..?) og það er mín afstaða til þess máls. (Gripið fram í: Styður þú hana?) Ég er sammála þeim sem vildu hafa þá ályktun öðruvísi, sem vildu að Sameinuðu þjóðirnar hefðu forræði á málum í Írak, (Gripið fram í: Styður þú hana?) sem vildu (Gripið fram í.) að friðargæsla yrði færð inn í landið á forsendum Sameinuðu þjóðanna, Evrópubandalagsins, Arababandalagsins, Evrópusambandsins eða slíkra aðila. (Gripið fram í: Uss, uss!) Það er mín afstaða. Gengur þetta mjög vel? (Gripið fram í: Þetta er engin afstaða.) Ætli ég sé nú aleinn um það í heiminum að hafa efasemdir um að ástandið sé mjög gott? Ætli ég sé aleinn um þá afstöðu að þessi ályktun hefði þurft að vera öðruvísi, að Sameinuðu þjóðirnar hefðu þurft að fá forræði málsins (Gripið fram í: En styður þú ..?) og að það hefði verið farsælla?

Það er nefnilega þannig að ég hef leyfi til þess að láta ekki Halldór Ásgrímsson stilla mér upp við vegg og þvinga mig til þess að segja já eða nei (Gripið fram í.) við máli af þessu tagi. (Forseti hringir.) Það er nefnilega þannig. Það er heiðarleg afstaða. En framsóknarmenn skilja auðvitað ekki slíkt (Forseti hringir.) sem segja já og amen við öllu sem Bandaríkjamenn troða ofan í hálsinn á þeim.