131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[19:43]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir athugasemdir við það að ég skuli ekki hafa talað opinskátt við 1. umr. málsins þegar ég mælti fyrir frumvarpi til raforkulaga vegna þess að í millitíðinni hefur það komið fram að það voru uppi áform sem ég greindi ekki frá þá.

Ástæðan er að sjálfsögðu sú að ef ég hefði gert það hefði ég verið að brjóta trúnað. Mál voru á viðkvæmu stigi á milli eigenda Landsvirkjunar. Ég gat ekki greint frá því að við ættum í viðræðum um þessi mál sem nú eru orðin opinber og varða það að kaupa Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ út úr Landsvirkjun vegna þess að þá hefði ég brotið trúnað við meðeigendur okkar. Ég vil líka segja að ef ég hefði greint frá því að uppi væru áform um það af hálfu ríkisstjórnarinnar eða stjórnarflokkanna að sameina fyrirtæki ríkisins í orkugeiranum hefði ég líka verið að brjóta trúnað vegna þess að ríkið á ekki Landsvirkjun eitt í dag. Svona gerast hlutirnir og nú eru þetta hlutir sem eru opinberir og hv. þingmaður veit af.

Hvað varðar aðra þætti sem hér komu fram hjá hv. þingmanni, t.d. eins og í sambandi við hækkun orkuverðs á suðvesturhorninu, geri ég mér grein fyrir því að það verður einhver hækkun. Það hef ég alltaf vitað vegna þess að við erum að fara út í meiri jöfnun á raforkuverðinu en áður hefur verið, þ.e. jöfnun í flutningskerfinu, en það að það séu 10% annars vegar og 20% hins vegar er ekki hægt að skýra á auðveldan hátt.