131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[19:51]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er gott að hafa hæstv. iðnaðarráðherra hér til skrafs og ráðagerða við umræðuna en nokkur skaði að hafa ekki meiri tíma þegar loksins gefst færi á því, en þetta verður sjálfsagt ekki í síðasta skiptið sem við ræðum raforkumál. Við erum með í höndunum frumvörp um breytingar á raforkulögum á næstu missirum þannig að það munu sjálfsagt gefast fleiri tækifæri til þess. Þetta er væntanlega fyrsta af mörgum plástursfrumvörpum sem hér munu koma til að reyna að stoppa upp í götin á fyrirkomulaginu, markaðsvæðingu orkugeirans sem við höfum ekki stutt eins og kunnugt er og sjáum ekki að komi til með að hafa mikla nytsemd í för með sér.

Þvert á móti held ég að það verði varla annað sagt en að talsverður vandræðagangur sé á gildistöku kerfisbreytingarinnar um áramótin þegar svo á að heita að fyrsti vísirinn að samkeppni um raforkusölu komi á til stórnotenda. Til marks um það er auðvitað að hér kom frumvarp frá ráðuneytinu um breytingar á lögunum áður en þau áttu að taka gildi og því frumvarpi varð síðan meira og minna að gjörbreyta í iðnaðarnefnd þannig að talsvert eru hlutirnir á floti enn þá.

Þess vegna var það að við hv. þingmenn, ég og Guðjón A. Kristjánsson, fluttum breytingartillögu um að þessu yrði öllu saman frestað um eitt ár. Mér segir svo hugur að ekkert hefði mönnum veitt af þeim tíma en á það féllst meiri hluti Alþingis ekki við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. málsins.

Ég ætla að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. iðnaðarráðherra og ekki hafa um þetta langt mál aðstæðnanna vegna á þessu herrans kvöldi þegar til stendur að ljúka þinghaldinu. Ræða fyrst aðeins þessa hluti sem nú hafa komið fram í dagsljósið, sannarlega nokkuð að óvörum, að á bak við tjöldin hafi verið í gangi hugmyndir um og séu jafnvel enn um að sameina Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða. Það er að vísu tengt við og hengt á það að í gangi voru þreifingar um viljayfirlýsingu, það er rétt að hafa það í huga, ekkert samkomulag — engan endanlegan gjörning eða enga endanlega ákvörðun — heldur var verið að reyna að ná samkomulagi um viljayfirlýsingu sem fæli í sér ákveðna hluti varðandi mögulega yfirtöku ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun.

Mér finnst það vera algerlega sjálfstætt mál. Það þýðir ekki þó að sú eignabreyting yrði í fyrirtækinu Landsvirkjun að þar með sé sjálfkrafa rökrétt að sameina Landsvirkjun, þó að hún væri þá orðin 100% í eigu ríkisins, og Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða. Það er allt annað mál. Ég verð að segja að ég er gjörsamlega gáttaður þegar ég les rökstuðning hæstv. iðnaðarráðherra fyrir því og tengingu hæstv. ráðherra við þá hugmynd í hið nýja lagaumhverfi raforkuiðnaðarins í landinu, vegna þess að hæstv. ráðherra staðfestir í fyrsta lagi í viðtali við blaðið Bæjarins besta á Ísafirði að stefnt sé að sameiningu þessari og segir síðan að sameiningarhugmyndirnar séu komnar til vegna breytinga sem eru fram undan á sviði raforkumála. Hún segir að ríkið eigi Rarik og Orkubú Vestfjarða að fullu og helminginn í Landsvirkjun og hafi verið að hugsa sér til hreyfings á markaðnum til þess að tryggja að hér verði meiri samkeppni.

Bíðum við, eykur það samkeppni að sameina Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða, þó svo að sveitarfélögin væru farin þar út? Ég óska eftir að hæstv. ráðherra fari yfir það. Ég sé ekki annað en það gangi þvert á hugmyndafræðina að baki uppskiptingu raforkumarkaðarins þannig að þetta verði sjálfstæð fyrirtæki framleiðenda, síðan flutningskerfi og svo dreifiveitur. Hvernig í ósköpunum á það að einfalda málin að taka Landsvirkjun, sem er langstærsti framleiðandi raforku og heildsöluaðili á raforku í landinu og kemur þar af leiðandi líka til með að eiga stóran hluta dreififyrirtækisins Landsnets, að færa í það fyrirtæki helstu dreifiveitur úti um landið og fyrirtæki eins og Orkubú Vestfjarða eða Rarik? Ég get ekki betur séð en að það sé algerlega í gagnstæða átt að grauta þar saman hlutverkum sem hugsunin er að hafa sem mest aðskilin. Er ekki einmitt gæfulegast í þessu að halda Landsvirkjun sem hreinum framleiðanda á raforku sem bjóði í heildsölu framleiðslu sína til einhvers fjölda kaupenda? Er ekki gæfulegra að hugsa sér að frekar fjölgi sæmilega burðugum orkufyrirtækjum í landinu en að þeim fækki?

Ég hefði haldið að þróunin væri í algerlega öfuga átt, t.d. þá að heimaaðilar leystu til sín og tækju við rekstri á bæði framleiðslueiningum og dreifingareiningum á landsvæðum sínum. Það væri frekar til bóta í þágu samkeppni, en ekki hugmyndir hæstv. ráðherra um að slengja þessu öllu saman og keyra þetta allt saman niður í þrjár einingar. Þá verða í aðalatriðum bara eftir þrjár einingar sem einhverju máli ná í þessum efnum. Hið nýja ríkis- ríkis- ríkisfyrirtæki ráðherrans, Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja. Í staðinn fyrir að nota möguleikana í samræmi við óskir heimamanna, ef menn eru hugsa sér slíkar breytingar á annað borð, að styrkja fremur sæmilega öflug svæðisbundin orkufyrirtæki sem eftir atvikum séu bæði framleiðendur og samkeppnisaðilar að því leyti og svo líka stórir dreifingaraðilar á sínum svæðum. Ég fæ ákaflega lítinn botn í þetta, það verð ég að segja.

Svo er það dálítið á floti hjá hæstv. ráðherra og rifjast þá upp að einhvern tíma ætlaði sami hæstv. ráðherra að flytja Rafmagnsveitur ríkisins norður á Akureyri og höfuðstöðvar þess fyrirtækis. Því var slegið upp í blöðunum og gott ef ráðherrann fékk ekki við sig nokkur sjónvarpsviðtöl (Gripið fram í.) og naut allverulegrar hylli fyrir þetta djarfa framtak að ætla að flytja Rarik með tugum ef ekki hundruðum starfa norður til Akureyrar, en það stóð nú stutt.

Nú er alveg hið gagnstæða uppi á teningunum því að aðspurð í Bæjarins besta á Ísafirði vill hæstv. ráðherra ekki slá því föstu að höfuðstöðvar hins nýja fyrirtækis verði á landsbyggðinni, vill ekki tjá sig um það mál en vísar til þess að hún fari líka með byggðamál og þeir hlutir séu henni hugleiknir og gefur lítið fyrir áhyggjur heimamanna af því að slík sameining og t.d. það að leggja Orkubú Vestfjarða niður sem sjálfstætt fyrirtæki með sjálfstæðri stjórnun og höfuðstöðvum á Vestfjörðum sé nokkurt áhyggjuefni fyrir Vestfirðinga.

Mér finnst þetta harla skrýtið, herra forseti, og ég tel, og tek að mörgu leyti undir með hv. síðasta ræðumanni, Jóhanni Ársælssyni, að ef menn eru að tala í alvöru um stórkostlegar landslagsbreytingar í fyrirtækjaheiminum og aðild hins opinbera að þeim rekstri á sama tíma og við erum á Alþingi og í iðnaðarnefnd með þessa hluti í höndunum stórkostlega skrýtið að það sé ekki upplýst, að a.m.k. iðnaðarnefnd Alþingis sé ekki látin fylgjast með hlutum af þessu tagi. Það er dálítið hjákátlegt fyrir iðnaðarnefnd Alþingis að lesa um það í héraðsfréttablöðum að slíkir hlutir séu í gangi á sama tíma og við erum með frumvörp í höndunum sem varða grundvallarskipulag raforkumálanna í landinu. Ég held að hafi menn þurft að hafa á því einhvern trúnað vegna viðræðna veit ég ekki til annars en mönnum hafi verið treystandi fyrir slíku í nefndum þingsins.

Varðandi þá breytingu sem verður nú um áramótin og menn hafa ekki fallist á eða borið gæfu til að fresta vil ég spyrja hæstv. ráðherra um nokkur óútkljáð atriði sem þar eru á ferð og er það þá spurning mín númer tvö á eftir þeirri sem snýr að stóru dráttunum í þessum fyrirtækjaheimi.

Í fyrsta lagi hvernig verður með málefni sem mér vitanlega hafa enn þá út af staðið og varða t.d. raforkuverð eða afslætti til fiskeldisstöðva? Er kominn botn í það mál? Veit hæstv. ráðherra hvort og þá hve mikið rafmagn kemur til með að hækka eða er líklegt til að hækka, t.d. til fiskeldisstöðvanna 1. janúar næstkomandi? Ekki þýðir lengur að vísa í að þetta sé í höndum annarra aðila þegar það er að verða kominn miður desember og þessir hlutir hljóta að þurfa að vera farnir að skýrast. Ég trúi því ekki að menn ætli að renna algerlega blint í sjóinn í þessum efnum.

Í öðru lagi nefni ég málefni garðyrkjunnar. Hefur verið farið yfir hverjar horfurnar eru í þeim efnum og hvort líklegt sé að þeir fjármunir sem settir hafa verið í að greiða niður raforku haldi, sem er liður í aðgerðum til að styrkja samkeppnisstöðu grænmetisframleiðslunnar í landinu og hæstv. landbúnaðarráðherra var með tillögur um á sínum tíma? Má ég þá minna á að tilgangur þeirra aðgerða að fara í sérstakar aðgerðir eða ráðstafanir til að lækka rafmagn til garðyrkju var að ná rafmagnsverðinu á Íslandi niður í það sem það væri til garðyrkjunnar í samkeppnislöndunum. Árangurinn er ekki glæsilegri en sá þegar kemur að verðlagningu raforku til almennra notenda á Íslandi að það þarf sérstakar aðgerðir til að ná henni niður í það sem hún er í Hollandi, Danmörku og öðrum nálægum löndum til kaupenda af tagi garðyrkjunnar. Það er veruleikinn því í skýrslu hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústssonar kom þetta skýrt fram. Þetta var borið saman, kortlagt og ein af tillögum til aðgerða í stuðningi við garðyrkjuna var að ná rafmagnsverðinu niður í það sem væri í samkeppnislöndunum.

Í þriðja lagi varðandi þessar spurningar er verð á rafmagni til húshitunar. Það gengur auðvitað ekki að það liggi ekki skýrt og ljóst fyrir í hvað stefnir með verð á rafhitun húsnæðis. Það er því miður svo að menn hafa haft áhyggjur af því að það gæti jafnvel orðið um að ræða verulega hækkun á raforkuverði til húshitunar og það, ef ég hef skilið þessa hluti rétt, helgast af því að menn hafa haldið niðri eða náð þar niður verðinu með tvíþættum ráðstöfunum, annars vegar niðurgreiðslum eða jöfnunargreiðslum yfir fjárlög og hins vegar hefur Landsvirkjun lagt sitt af mörkum með afsláttum til að ná niður þessum töxtum. Það mun væntanlega hverfa í hinu blinda kerfi sem nú á að taka upp. Hvers er að vænta hvað varðar verðlagningu á rafmagni til húshitunar?

Í fjórða og síðasta lagi hvaða upplýsingar getur hæstv. ráðherra, og þar tek ég í raun og veru undir spurningu sem þegar var borin upp af fyrri ræðumanni, veitt okkur hér og nú um líkurnar á því að um verulegar almennar raforkuverðshækkanir verði að ræða á einhverjum dreifiveitusvæðum 1. janúar næstkomandi?