131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[20:43]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að sú ræða sem hæstv. ráðherra fór með varðandi hlutverk sitt sem bæði stjórnvalds á þessu sviði og síðan farandi með eigendahlutverkið í orkufyrirtækjunum hafi nú verið samfelldur rökstuðningur fyrir því að þetta fyrirkomulag gangi ekki upp. Það er skaði að hæstv. fjármálaráðherra er farinn því það hefði verið fróðlegt að fá svör beggja ráðherranna við því. Er ekki algerlega augljóst að byrja þarf á því að færa eigendahlutverkið frá iðnaðarráðuneytinu yfir til fjármálaráðuneytisins þannig að stjórnsýslan, eftirlitið og stefnumótunin að því leyti sé ekki á sömu hendi og eignarhald ríkisins á þessum fyrirtækjum sem fyrirtækjum og að í skjóli þess telur hæstv. iðnaðarráðherra að eðlilegt sé að hún haldi upplýsingum leyndum þannig að iðnaðarnefnd Alþingis hafi ekki hugmynd um hvað fram fer bak við tjöldin eða aðrir aðilar? Ég held því að það þurfi tafarlaust að taka til skoðunar að færa eigendahlutverkið frá iðnaðarráðuneytinu. Nóg er samt, held ég, sem iðnaðarráðuneytið hefur á sinni könnu í þessum efnum, þ.e. að fara með alla stjórnsýslu, eftirlit o.s.frv.

Síðan fer hæstv. ráðherra aftur með þuluna um að það að sameina Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða auki samkeppni af því að þessir aðilar séu hver í sínu hlutverkinu. Nú er það ekki nema að hluta til rétt. Orkubú Vestfjarða framleiðir verulegan hluta af sinni orku sjálft og einingunum fækkar. Það er alveg borðleggjandi. Ég óttast að hér sé eitthvað annað á ferðinni. Getur hugsast að hörmuleg og versnandi eiginfjárstaða Landsvirkjunar sem stefnir lóðbeint niður vegna óhagkvæmra og dýrra fjárfestinga sem seint og illa ef þá yfir höfuð munu borga sig eins og Kárahnjúkavirkjun, stefni því fyrirtæki í mikinn vanda og að hér eigi að fara í eitthvert sjónarspil til þess að reyna að koma (Forseti hringir.) Landsvirkjun á þurrt á nýjan leik með því að láta hana renna saman við Rarik og Orkubú Vestfjarða og nota eigið fé (Forseti hringir.) þessara stofnana og eignir til að halda Landsvirkjun á floti. (Gripið fram í: Og láta Vestfirðinga borga fyrir ..?)