131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Raforkulög.

328. mál
[20:57]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Niðurstaðan í meðförum þingsins varð sú að flýta því að samkeppni kæmist á í raforkukerfinu um eitt ár þannig að samkeppni fyrir almenna notendur hefjist 1. janúar 2006 í stað 1. janúar 2007, eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Því er eðlilegt að hefja umræðuna um undirbúninginn að samkeppninni, um hvaða skipulag ríkið hugsar sér að hafa á fyrirtækjum sínum og menn búi þannig um að sem mestar líkur séu á að til verði það samkeppnisumhverfi sem þarf að vera til staðar til að markaður af þessu tagi virki. Það er eðlilegt að menn hreyfi þessum málum og ég tel mikilvægt að menn ræði um framtíðarsýnina í þessum efnum.

Ríkið leikur lykilhlutverk á raforkumarkaði í ljósi þess að það á helminginn í Landsvirkjun. Það á Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða þannig að aðgerðir þess skipta miklu máli fyrir það hvernig samkeppnisumhverfið virkar þegar það tekur gildi. Fyrst niðurstaðan varð sú að flýta breytingunum um eitt ár þá eru þessi mál enn frekar í brennidepli en áður. Það er fyllsta ástæða til að menn fari yfir þau og reifi sjónarmið sín í þeim efnum.

Ég held að þau áform sem hér hefur verið upplýst um, að ríkið hugsi sér að sameina fyrirtæki sín í eitt séu ekki einhlít, það er ekki augljóst að af því leiði jákvæðar breytingar í þeim skilningi að það tryggi frekar samkeppni í raforkusölu og raforkuframleiðslu en óbreytt fyrirkomulag eða eitthvert annað fyrirkomulag. Það er augljóst að sameinað fyrirtæki stæði að gríðarlega stórum hluta framleiðslunnar í framleiðslu. Sameinað fyrirtæki hefði einnig mjög mikið af leyfum fyrir virkjanakostum á sinni hendi og gæti stýrt því mjög mikið hvar menn bera niður og hverjir geti hafið raforkuframleiðslu.

Ég held að menn þurfi dálítið að staldra við í þessum efnum. Menn verða að leggja línurnar þannig að sem mestar líkur séu á samkeppni. Að öðrum kosti erum við að stíga skref sem er frá því fyrirkomulagi sem við höfum ákveðið að taka upp. Við erum að vissu marki að stíga inn í óvissan tíma þegar við ætlum okkur að taka upp samkeppnisfyrirkomulag á raforkumarkaði, við vitum að við þekkjum ekki allar stærðir og við vitum ekki hvernig hlutirnir þróast. En menn hafa ákveðið að fara þessa leið, m.a. fyrir tilstuðlan Evrópusambandsins og með þeim rökum að menn telja yfirgnæfandi líkur á því að það eigi að geta leitt til góðs fyrir neytendur í þeim skilningi að verð á raforkunni eigi að vera lægra en ella og afhendingaröryggið ekki minna en ella. Það er það sem skiptir máli. Raforkumarkaðurinn snýst um tvennt, verð og afhendingaröryggi. Þess vegna þarf fyrirkomulagið að tryggja a.m.k. jafngott ástand í þeim efnum og verið hefur en helst betra. Samkeppnin á að leiða til lægra verðs, það er tilgangur hennar. Ef hún leiðir ekki til lægra verðs er óvíst um ávinning af allri breytingunni.

Þess vegna þurfum við að tryggja sem best að um samkeppni geti verið að ræða. Það er lykilatriði í þessu öllu saman. Það að gera þrjú fyrirtæki að einu eykur ekki möguleika á samkeppni, það er augljóst mál, heldur er miklu líklegra að það dragi úr líkunum á því að um samkeppni sé að ræða. Þess vegna tek ég með varúð þeim hugmyndum að sameina þessi þrjú fyrirtæki í eitt. Ég held að menn þurfi að fara mjög vandlega yfir þær hugmyndir og stöðuna almennt og skoða alla þætti málsins áður en menn gera það upp við sig hvort menn eigi að stíga það skref að sameina þessi þrjú fyrirtæki í eitt. Ég hef a.m.k. töluverðar efasemdir um að það sé skynsamlegasta skrefið í núverandi stöðu.

Ég sé þvert á móti fyrir mér að ef áfram yrðu þessi þrjú fyrirtæki eða einhver breyting á þeim, það er ekki útilokað að það geti orðið breytingar á þeim, sumir hafa talað fyrir því að skipta Rafmagnsveitum ríkisins upp á milli annarra fyrirtækja á landsbyggðinni, ég sé fyrir mér að slíkt fyrirkomulag geti stuðlað að samkeppni, ekki bara á framleiðslu og sölu á þeim svæðum þar sem fyrirtækin starfa heldur líka annars staðar. Við sjáum að Orkuveita Reykjavíkur er að færa sig norður yfir heiðar og hefja samstarf við aðila á Norðurlandi og Rafmagnsveitur ríkisins eru í samstarfi við aðila í Skagafirði. Það er ekkert óhugsandi að Orkubú Vestfjarða gæti tekið upp samstarf við aðila á Norðurlandi eða Suðurlandi um framleiðslu og sölu. Því fleiri sem eru í þessari atvinnugrein því meiri líkur eru á að um samkeppni geti verið að ræða og þessi fyrirtæki, sérstaklega Orkubúið er vel í stakk búið til þess að standa sig í þessu umhverfi vegna sterkrar eiginfjárstöðu og öflugs fyrirtækis að öllu leyti. Það er því vel búið til þess að pluma sig í samkeppni að mínu mati. Ég held að við verðum líka að skoða þessa hluti áður en við gerum það upp við okkur hvernig við endum málið varðandi fyrirkomulagið á þessum fyrirtækjum ríkisins.

Einnig verðum við að skoða annan hlut í þessu sem ég hef töluverðar áhyggjur af, það þarf að fara ofan í það mál og fá upplýsingar um það og það er eiginfjárstaða Landsvirkjunar. Ég sé það sem líklegustu skýringuna á hugmyndunum að eiginfjárstaða Landsvirkjunar eins og hún er eða kann að verða innan skamms sé með þeim hætti að hana þurfi að styrkja og þess vegna sé rétt að sameina þessi fyrirtæki í eigu ríkisins og leggja þá eigið fé Orkubúsins og Rafmagnsveitna ríkisins til Landsvirkjunar þannig að Landsvirkjun standi sæmilega eftir. Ef þessar vangaveltur eiga við rök að styðjast þarf að skoða málið alvarlega vegna þess að þá hljóta menn að spyrja: Hvernig er staða Landsvirkjunar núna? Hafa menn verið að gera orkusölusamninga við stóriðjufyrirtæki sem eru ekki nægilega góðir til að standa undir framtíð fyrirtækisins? Ég mundi gjarnan vilja fá svör við því áður en lengra er haldið ef það reynist á rökum reist að menn hafi áhyggjur af stöðu Landsvirkjunar í samkeppni vegna þess að Landsvirkjun hafi ekki nægilega öfluga eiginfjárstöðu.

Þetta kann líka að tengjast hugmyndum um það að ríkið kaupi út aðra eignaraðila í Landsvirkjun, Reykjavíkurborg og Akureyri. Það skiptir auðvitað miklu máli hvernig menn gera það. Ætla menn að gera það þannig að eigandinn, þ.e. ríkissjóður, greiði hina aðilana út eftir samkomulagi með fé úr ríkissjóði? Þá hefur það ekki áhrif á stöðu Landsvirkjunar. Ef menn ætla að láta Landsvirkjun borga út hina eignaraðilana, Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstað, er augljóst mál að það kann að hafa áhrif á stöðu Landsvirkjunar.

Í blöðum sé ég að menn eru að velta upp tölum, samtals um 20 milljörðum kr., sem eigi að greiða þessum tveimur eignaraðilum, sem eru þá skuldbindingar sem legðust á Landsvirkjun ef farin væri sú leið að láta fyrirtækið bera kaupverðið eða skuldbindingarnar. Það gjörbreytir augljóslega eiginfjárstöðu Landsvirkjunar. Þess vegna skiptir miklu máli hvernig ríkið útfærir samninga við aðra eignaraðila, hvort ríkið ætlar að bera það sjálft eða láta fyrirtækið bera það.

Ég er ekki viss um að menn eigi að keppast við að kaupa út Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstað ef það leiðir til þess að Landsvirkjun verði í hálfgerðum vandræðum á eftir. Fyrir utan það er sérumræða hvað á að borga aðilunum fyrir eignarhluta sinn. Ég er ekki alveg búinn að sannfærast um að eðlilegt sé að greiða eignaraðilunum það verð sem rætt hefur verið um í blöðunum. (Gripið fram í.) Menn þurfa að hafa í huga hvernig þetta eigið fé varð til og hvað eigendurnir lögðu til Landsvirkjunar í upphafi. Ég fór ofan í þetta mál fyrir nokkrum árum og það var mjög fróðlegt að kynna sér það. Niðurstaðan var sú í stuttu máli að uppistaðan að eign sveitarfélaganna kemur eiginlega í gegnum Marshall-aðstoðina. Það er ekki sjálfgefið að eðlilegt sé að ekki sé tekið tillit til þess við ákvörðun á verði á hlut sveitarfélaganna. Þetta er ekki til komið með þeim hætti að sveitarfélögin hafi lagt til þetta fé af eigin skatttekjum og auðvitað þarf að taka tillit til þess hvernig eignarhluturinn varð til þegar menn gera upp verð og skilmála.

Síðan hafa orkunotendur greitt það verð sem hefur að öðru leyti myndað eigið fé Landsvirkjunar. Það er mál sem menn þurfa að fara vandlega yfir áður en gengið er frá ákvörðunum um verð á eignarhlutanum, því þetta má auðvitað ekki vera með þeim hætti að þetta líti út eins og sérstök byggðaaðstoð við þessi tvö sveitarfélög, sem eru byrðar sem menn leggja á aðra að standa undir. Þetta þarf að vera sanngjarnt verð miðað við verðmæti fyrirtækisins og það framlag sem eignaraðilarnir lögðu fram á sínum tíma og síðar og að teknu tilliti til þess sem þeir hafa notið af fyrirtækinu, sérstaklega í formi arðgreiðslna.

Ég held því, virðulegi forseti, að menn þurfi að fara mjög vandlega yfir þessa hluti áður en hrapað er að niðurstöðu. Að mínu viti vantar veigamikil rök fyrir því að stökkva beint yfir í hugmyndir um sameiningu þessara þriggja fyrirtækja sem ríkið á tvö að öllu leyti og eitt að hálfu leyti.

Ég hygg að menn muni ræða þetta frekar á næsta ári því þetta þarf væntanlega að útkljást þá. Það er aðeins ár þar til samkeppni á raforkumarkaði fyrir almenna notendur tekur gildi og þá er eðlilegt að menn séu búnir að marka stefnuna af hálfu ríkisvaldsins um skipulagið af sinni hálfu. Ég geri því ráð fyrir að málið verði rætt nokkuð á vorþingi og menn muni fara yfir það frá öllum hliðum þess.

Markaðsvæðingu kerfis eins og raforkukerfis fylgja auðvitað ákveðnir hlutir eins og þeir að niðurgreiðsla í kerfinu hlýtur að falla niður og menn geta ekki komið lágu raforkuverði til einstakra valinna kaupenda eins og verið hefur í gegnum afslætti eða niðurgreitt verð innan fyrirtækjanna sem ríkið hefur átt eða haft tök á að stjórna. Það breytir því fyrirkomulagi og er óhjákvæmilegt, menn komast ekkert undan því og það mun leiða til þess að afslættir og annað sem verið hafa hjá Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitu ríkisins falla niður. Við því verður ríkið þá að bregðast í gegnum einstaka liði í fjárlögum ef menn vilja ekki að hækkun á raforkuverði gangi til þeirra sem hafa notið afsláttanna. En fyrir því kunna að vera þeirra rök eins og fram kom í máli hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar áðan.

Herra forseti. Ég held að ég láti þetta duga sem almennar hugleiðingar um skipulagið á raforkumarkaðnum. Það má vel vera að það felist ákveðin tækifæri í því að sameina þessi þrjú í eitt en ég hefði gjarnan viljað fá frekari upplýsingar um hvaða tækifæri það eru, í hverju þau kunni að vera fólgin því að fyrirtæki eins og Orkubú Vestfjarða framleiðir ekki nema þriðjunginn af því rafmagni sem það selur, það þarf að treysta á að flytja rafmagn frá öðrum hlutum landsins og kaupa það af öðrum fyrirtækjum, fyrst og fremst Landsvirkjun. Ég átta mig ekki alveg á því í hverju tækifærin eiga að felast fyrir það fyrirtæki ef það er orðið hluti af stóru fyrirtæki sem fyrst og fremst er stjórnað af þeim sem í dag stjórna Landsvirkjun. Ég sé hins vegar fyrir mér tækifærin hjá fyrirtæki eins og Orkubúinu ef það starfar áfram sjálfstætt eða í einhverri breyttri mynd með hluta af Rafmagnsveitum ríkisins. Það hefur ýmsa möguleika á að sækja fram úr þeirri stöðu sem það er í í dag eins og ég rakti fyrr í ræðu minni.