131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:51]

Frsm. 1. minni hluta (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Greind mín er ekki meiri en svo að ég rétt næ upp í að gera mér grein fyrir veruleikanum en að fljúga ofar honum tekst mér sjaldnast.

Því miður er það svo, eins og hæstv. forsætisráðherra veit, að það er bara andstaða Framsóknarflokksins sem kemur í veg fyrir að lækkun matarskattsins hefur verið samþykkt. Það veit hæstv. forsætisráðherra auðvitað jafn vel og ég. Hann veit það jafn vel og hæstv. fjármálaráðherra sem sagði í sjónvarpsþætti við mig þegar við ræddum þetta og ég innti hæstv. ráðherra eftir því hvort það hefði ekki verið stefna Sjálfstæðisflokksins að lækka matarskattinn um 7%. Hæstv. fjármálaráðherra, hjartaprúður og ærlegur, sagði, með leyfi forseta:

„Við vildum lækka matarskattinn um 7%. Framsóknarflokkurinn vildi fara aðra leið.“ (Gripið fram í.)

Samkvæmt þessu og miðað við þær takmörkuðu gáfur sem mér eru gefnar les ég út úr þessu svari hæstv. fjármálaráðherra að Sjálfstæðisflokkurinn hafi viljað lækka matarskattinn, eins og allir aðrir í þessum sal nema framsóknarmenn, (Gripið fram í.) að það hafi verið sá flokkur sem í þessu samtali gekk undir nafninu Framsóknarflokkurinn sem vildi fara aðra leið. Þýðir það, herra forseti, nokkuð annað en að það hafi verið Framsóknarflokkurinn sem kom í veg fyrir að þetta yrði samþykkt?

Hins vegar ber að gefa hæstv. forsætisráðherra það sem hann á skilið og hann er að boða stefnubreytingu. Ég tel að hin harða andstaða Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) og fleiri aðila úr stjórnarandstöðunni gegn þessari stefnu Framsóknarflokksins hafi leitt til þess, eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson bendir á úr sæti sínu, að flótti Framsóknarflokksins er hafinn í þessu máli. Við munum reka hann og líka í öðrum málum.