131. löggjafarþing — 56. fundur,  10. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[21:53]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er lélegur sagnfræðingur. Hann getur lesið stjórnarsáttmálann og séð hver voru forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar. Það er það sem við vorum að gera hér. Þar stendur enn fremur að endurskoða skuli virðisaukaskattskerfið út frá hagsmunum almennings. Sú vinna er farin í gang.

Ég vil enn fremur minna hv. þingmann á að Sjálfstæðisflokkurinn varð að henda þeim út í drulluga keldu 1995 vegna þess að það gekk ekki að byggja upp atvinnulíf á Íslandi með Samfylkingunni eða Alþýðuflokknum sáluga.

Ég minni hér á að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði sig úr ríkisstjórn því að hún þoldi ekki sinn eigin flokk og stofnaði nýjan. Hún gerði það vegna þess að þeir djöfluðust á sjúkrahúsunum. Þá fóru til sjúkrahúsa og heilbrigðismála 46 milljarðar af tekjum ríkisins. Í dag fara 122,5 milljarðar og við erum að gefa í á milli ára um 8 milljarða í þennan málaflokk. Þess vegna er það staðreynd að núverandi ríkisstjórn er að vinna í þágu almennings á Íslandi. Hér er verið að bæta lífskjör. Atvinnuleysið sem var þá er að mestu horfið. Hér var fátækt og erfiðleikar 1995. Þjóðin hefur verið á miklu framfarastigi.

Sannleikurinn er sá að Sjálfstæðisflokkurinn verður varla kallaður íhald og Framsóknarflokkurinn enn þá síður því að þetta eru framfaraflokkar sem standa nú og við sjónmál þegar við horfum til Evrópu er staðan sú að á Íslandi eru einhverjar bestu aðstæður í efnahagsmálum í allri Evrópu. Hér blasa við framfarir og mikil uppbygging, og ef við horfum til 2010 þá er það viðurkennt að hér verði mestur hagvöxtur. Þess vegna getum við gert þetta og ég spyr hv. þingmann: Er hann á móti (Forseti hringir.) því að tekjuskattur launþega lækki úr 38 í 34%? Hæstv. forseti. Það var alveg ljóst að það stefndi í að fara með hann í 40% af hálfu Alþýðuflokksins.