131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 2.

[15:22]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið margrætt á Alþingi. Það hefur verið rætt í tengslum við utanríkismál, í tengslum við skýrslu utanríkisráðherra þannig að talsmenn flokkanna á Alþingi hafa tjáð sig um málið í þeirri umræðu. Ég man ekki betur en talsmenn allra flokka hafi tekið jákvætt undir það allan tímann að við mundum sækjast eftir því að sitja í öryggisráðinu með sama hætti og önnur Norðurlönd hafa gert og kominn væri tími til þess að Ísland axlaði ábyrgð í málinu og legði sig fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Hvort hver einasti þingmaður í þessum sal er sammála því veit ég ekki og veit ekki nákvæmlega hvernig það er innan flokkanna en það er alveg ljóst að talsmenn flokkanna í utanríkismálum hafa almennt og ég leyfi mér að segja undantekningarlaust stutt þessa fyrirætlun og ég man ekki betur en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon væri þar á meðal.