131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 2.

[15:23]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hygg að vísu, eins og ég sagði áðan, að röðin á umfjöllun um málið hefði þess vegna mátt vera önnur. Það var fyrst undir lok sl. árs sem utanríkismálanefnd var kynnt þetta með formlegum hætti þannig að drög að kostnaðar- og framkvæmdaáætlun væru þar reidd fram. Það ber vissulega að viðurkenna að það var gert.

Þetta hefur að sjálfsögðu einnig borið á góma í almennum umræðum um utanríkismál á umliðnum árum og ég hygg að það sé rétt að menn hafi almennt ekki tekið illa í þá hugmynd. Þó hafa frá byrjun verið uppi sterkir fyrirvarar hvað varðaði kostnaðinn.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. forsætisráðherra og vona að hann víkist ekki enn undan að svara því: Megum við reikna með því að þurfa að búa við það að stjórnarliðið sé klofið í málinu? Hefur ríkisstjórnin ekki allan meiri hluta sinn á bak við sig í því að stefna að framboðinu? Það er ekki víst að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sé einn á ferð. Það er ómögulegt að ráða annað af ummælum hans en að hann hyggist beita sér fyrir því að hætt verði við framboðið og hann skorar á formann sinn og hæstv. utanríkisráðherra að gera það. (Forseti hringir.) Hvað segir hæstv. forsætisráðherra um þá uppákomu á stjórnarheimilinu?