131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 3.

[15:26]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Varanlegar lausnir í samgöngumálum svo sem jarðgöng sem tengjast láglendisvegum er efni þeirrar fyrirspurnar sem ég vil beina til hæstv. samgönguráðherra og lýtur að jarðgangaáætlun og endurskoðun hennar.

Fyrir fimm árum kom út skýrsla um jarðgangaáætlun. Þar var gert ráð fyrir að jarðgöng sem hugsanlega væri hagkvæmt að gera til þess að koma vegakerfinu á láglendisvegi væru rúmlega 100 kílómetrar alls. Þrjár leiðir voru þá settar í forgang, þ.e. Reyðarfjörður/Fáskrúðsfjörður, sem er framkvæmd sem er langt komin, Arnarfjörður/Dýrafjörður og Siglufjörður/Ólafsfjörður. Yfir nokkra fjallvegi hafa verið lagðir nýir vegir, svo sem um Vatnaleið og um Bröttubrekku, sem virðast ætla að reynast vel með tilliti til vetrarfærðar, og yfir Klettháls, sem jafnan er ófær þrátt fyrir nýjan veg ef vind hreyfir að ráði að vetri til.

Nú hefur verið mikið um snjóflóð og snjóflóðahættu á Vestfjörðum, einkum á leiðum út frá Ísafirði til Súðavíkur og Bolungarvíkur. Öllum sem áhuga hafa á varanlegum samgöngubótum er orðið ljóst að tilraun vegskálanna á Óshlíð veitir ekki það öryggi sem ásættanlegt er. Vestfirðingar hafna því að gera sams konar tilraunir á Súðavíkurhlíð og telja að ná eigi varanlegu öryggi og styttingu leiða með jarðgöngum. Því er spurt: Er ekki kominn tími til að bæta jarðgöngum milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar á forgangslista um leið og við endurröðum þeim jarðgöngum sem eiga að vera í forgangsröð með tilliti til öryggis vegfarenda og styttingu vegalengda milli þéttbýlisstaða og landsvæða?

Auk þess er mjög nauðsynlegt að skoða hvernig kostnaður við jarðgangagerð hefur breyst og væntanlega lækkað á undanförnum árum og áratugum, einnig hvað öryggi og annan ferðamáta áhrærir.