131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 3.

[15:28]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr um áætlanir um frekari jarðgangagerð og getur þess sem rétt er að framkvæmdir við jarðgöng eru afar mikilvægar og auka öryggi á þjóðvegum, stytta leiðir á milli byggða o.s.frv. Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um það.

Nú er í vinnslu endurskoðuð samgönguáætlun til næstu fjögurra ára. Við höfum gert ráð fyrir því og gerum ráð fyrir því að framkvæmdir geti hafist á næsta ári við göngin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Framkvæmdir vegna þeirra jarðganga verða boðnar út á þessu ári þannig að það verkefni er næst.

Hv. þingmaður nefndi það réttilega að við afgreiðslu jarðgangaáætlunarinnar og samgönguáætlunar var um það rætt að göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar væru á dagskrá. Þegar kemur að endurskoðun á langtímaáætluninni munu öll þau áform verða tekin til meðferðar og ég geri ráð fyrir því að hugmynd um jarðgöng í staðinn fyrir veginn fyrir Súðavíkurhlíð verði skoðuð sérstaklega þegar þar að kemur. Þangað til vinnum við að undirbúningi málsins og lítum að sjálfsögðu til reynslunnar af endurbættum vegum m.a. sem þarna er um að ræða.

Þetta er svar mitt. Það liggur ekki fyrir fyrr en samgönguáætlun til lengri tíma verður til meðferðar hvort og hvenær yrði ráðist í þessi göng.