131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 3.

[15:32]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að á sumum svæðum landsins er mikil þörf á að lagfæra vegakerfið með tilliti til öryggis á akstursleiðum og vitna ég þar enn til og minni á þær hættur sem myndast hafa á vegum á norðanverðum Vestfjörðum undanfarnar vikur og ekki er séð fyrir endann á enn þá.

Það væri einnig mjög fróðlegt að tekið yrði saman fyrr en seinna hvaða ávinning við höfum haft af göngunum, t.d. Vestfjarðagöngunum annars vegar og Hvalfjarðargöngunum hins vegar, og þá ekki bara í fjárhagslegum sparnaði við nýtingu jarðganganna heldur einnig með tilliti til þess hve öryggi hefur aukist á vegunum. Vissulega hefur verið lagt mat á það varðandi Hvalfjarðargöngin nýverið af aðilum á Bifröst en það væri fróðlegt að skoða málið frá öllum hliðum.