131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 4.

[15:37]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og að hann hefur skilning á því mikla vandamáli sem hér er uppi. Hann boðar greinilega að hann ætli að leysa það en spurning er hvernig hæstv. ráðherra ætlar að gera það. Ég tel t.d. ekki nægjanlegt að taka inn í brunabótamatið mat á landi og lóð sem eignin stendur á. Þar erum við að tala um 1–2 millj. í mesta lagi sem það hækkaði matið en í þeirri úttekt sem ég bað um að gerð yrði hjá Fasteignamati ríkisins kemur fram að það er algengt að það sé 2–5 millj. á litlum íbúðum eða íbúðum sem eru undir 16,5 millj. Viðskiptaráðuneytið og viðskiptaráðherra hefur reyndar viðurkennt það og gert athugasemdir við það og telur að verið sé að miða við brunabótamat og að óeðlilegt sé að brunabótamatið sé notað sem veðhæfi í fasteignaviðskiptum.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé sú leið sem hann er að hugleiða að miða hér við kaupverð fasteigna eins og ég hef lagt til.