131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2003.

[15:49]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir orð hæstv. forseta Alþingis þess efnis að starf umboðsmanns Alþingis er afar mikilvægt í stjórnkerfi okkar og mikilvægi þess hefur satt að segja farið mjög vaxandi í seinni tíð. Alþingi og raunar almenningur í landinu hefur orðið þess aðnjótandi að þeir einstaklingar sem gegnt hafa starfi umboðsmanns Alþingis, fyrst Gaukur Jörundsson og síðan Tryggvi Gunnarsson, eru afar hæfir í starfi sínu og hafa sinnt því af kostgæfni. Ég held að óhætt sé að fullyrða að þessi síðasta skýrsla umboðsmanns fyrir árið 2003 sýni það og sanni að þar er haldið vel utan um alla hluti.

Ég ætla í þessari ræðu ekki að fara ítarlega yfir einstök efnisatriði í skýrslu umboðsmanns, það munu félagar mínir í þingflokki Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson og Guðrún Ögmundsdóttir, gera hér í kjölfarið en ég vil þó drepa á örfá atriði.

Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á töflu sem finna má á bls. 19. Yfirskrift þess kafla er „Tafir hjá stjórnvöldum við afgreiðslu mála“. Í því töfluverki sem er frá 1998 og til viðmiðunarársins 2003 kemur í ljós að svo virðist, því miður, sem tafir hafi aukist og að svörun stjórnkerfisins, opinberra stofnana, hafi farið versnandi. 17,1% skráðra mála fellur undir þá skilgreiningu árið 2003 og telst alls 51 kvörtun skráð af því tilefni. Það er aukinn fjöldi og hærra hlutfall en var fyrir árið 1998 og hefur farið sífellt versnandi. Það er áhyggjuefni, kannski ekkert mjög stórt en það er þó öfugþróun sem nauðsynlegt er að snúa við hið allra fyrsta.

Það er líka sérstök ástæða til að vekja athygli á kafla VI þar sem umboðsmaður rekur ítarlega og málefnalega samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda. Ég vil bara að lýsa yfir sérstakri ánægju minni með þá niðurstöðu sem umboðsmaður kemst að í því sambandi og ætla ekki að hafa fleiri orð um það.

Það er einnig alltaf athygli vert í skýrslum umboðsmanns hvar hann ber niður í frumkvæðismálum sínum. Hann hefur oft verið býsna hittinn, ef svo mætti að orði komast, þegar frumkvæðismálin eru annars vegar og það er ævinlega spennandi, ef ég mætti líka nota það orð, fyrir okkur þingmenn að fylgjast með því hvar athugunarefni hans verða frá ári til árs. Auðvitað er það lykilatriði og grundvallaratriði í störfum umboðsmanns. Þótt hann lúti Alþingi hvað varðar rekstrarumhverfi er hann algerlega óháður í störfum sínum sem er auðvitað eitt grundvallaratriðið í því að hann geti sinnt þeim sem skyldi.

Hvað varðar þessi frumkvæðismál hefur einnig verið um þau fjallað í fréttum og oft og tíðum hafa alþingismenn tekið þau upp hér og reynt að gera lagabætur í kjölfarið. Núna fjallar hann m.a. um afgreiðslutíma hjá bótanefnd, um afgreiðslutíma hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu í kærumálum og ákveðin athugunarefni varðandi heilbrigðisþjónustu fanga í fangelsum. Allt eru þetta mál sem hafa verið uppi á borðum okkar í kjölfarið og ég vil þess vegna undirstrika og lýsa því yfir hversu mikilvægt það er að umboðsmaður standi vaktina sem hann hefur sannarlega gert og mun gera vafalaust áfram.

Í fjórða lagi vil ég nefna af því að sveitarfélagaþátturinn er tiltölulega nýr af nálinni þegar kemur að umfangi starfa umboðsmanns að þar á voru gerðar lagabreytingar. Ég man ekki hvenær það var en það eru ekkert mjög mörg ár síðan. Ég ætla svo sem ekki að gera stórt mál úr því en ef maður skoðar töfluverk umboðsmanns og tölfræði hans í efnisyfirliti hefði maður kannski reiknað með því fyrir fram að þau álitaefni sem lúta að sveitarstjórnum og sveitarfélögum yrðu fleiri en raun ber vitni. Nálægð sveitarfélaga við umbjóðendur, við kjósendur, við íbúa, er auðvitað meiri en gerist og gengur hjá opinberum stofnunum sem undir ríkið heyra. Af því að hún er miklu meiri hefði maður kannski áhyggjur af því að þar kæmu fleiri mál upp en raun ber vitni. Kannski ber að fagna því að svo er ekki eða þá hitt, að vera kann að einstaklingum sé ekki nægilega vel ljóst að þeir eiga leið til umboðsmanns þegar kemur að álitamálum og ágreiningsmálum er lúta að stjórnsýslu sveitarfélaga.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Mér fannst þó nauðsynlegt að taka undir með hæstv. forseta, Halldóri Blöndal, um mikilvægi starfa umboðsmanns og eins með hinu, að þar er allt í góðu lagi og ég vænti þess að svo verði áfram.