131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2003.

[15:55]

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil greina frá því að allsherjarnefnd hefur fundað með umboðsmanni vegna þessarar skýrslu eins og venja hefur verið undanfarin ár. Fyrir ári fór allsherjarnefnd í heimsókn til umboðsmanns en þar var vel tekið á móti henni og farið yfir helstu verkefni sem umboðsmaður hafði sinnt á árinu. Að þessu sinni kom umboðsmaður á fund nefndarinnar og þá var rætt um helstu atriði sem lögð er áhersla á í inngangskafla skýrslunnar.

Ég vil fyrst nefna að ánægjulegt er að sjá að fleiri mál fá lokaafgreiðslu á árinu 2003 en árið á undan og að umboðsmaður er með færri mál í lok árs óafgreidd en ári fyrr. Mér finnst þetta bera vott um að vasklega er unnið hjá umboðsmanni og afar mikilvægt að svo sé. Þetta er mjög ánægjulegt, því það er jafnframt ljóst að gríðarlegur fjöldi erinda berst umboðsmanni, ýmiss konar fyrirspurnir, bæði símleiðis og bréflega og óskað er eftir fundum, stanslaust. Mér finnst umboðsmanni hafa tekist afskaplega vel að grisja úr og greina síðan á milli þeirra mála sem þurfa að fá ítarlegri efnislegri meðferð og hinna sem geta fengið afgreiðslu með öðrum hætti í stjórnsýslunni. Mér sýnist á öllu að umboðsmaður hafi þarna komið upp afar afkastamiklu og gagnlegu verklagi.

Að venju er skýrslan mjög ítarleg og greinargóð og mjög gagnleg fyrir störf þingsins. Hún er þinginu mjög mikilvæg til að fylgjast með framkvæmd stjórnsýslunnar. Það veldur vissum áhyggjum að ítrekað skuli sömu málaflokkarnir vera fyrirferðarmiklir. Hér hafa verið nefndar tafir á afgreiðslu erinda og í skýrslunni kemur umboðsmaður jafnframt inn á að hann skynji vissa tregðu hjá stjórnvöldum til að fara að ábendingum, jafnvel eftir að gerð hefur verið athugasemd við og gefnar út yfirlýsingar um að ákveðin framkvæmd verði færð til betri vegar. Það er ekki í öllum tilvikum sem slíkum orðum fylgja athafnir sem skyldi.

Í inngangi skýrslunnar er jafnframt að finna sérstakan kafla um samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda og ég held að það sé vel að umboðsmaður hafi sett niður slíkar reglur. Hann hefur séð tilefni til að gera það og þær koma mér fyrir sjónir sem mjög auðskiljanlegar og skýrar. Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld séu almennt vel upplýst um efni þessara reglna, því mikilvægt er að ró og friður sé um þessi samskipti og að þau séu í föstum og skýrum farvegi.

Ég sé ekki tilefni til að fara nánar ofan í einstök efni hér. Ég vil þó geta þess að lokum að áður hefur komið fram í skýrslum umboðsmanns Alþingis hve mikilvægt er að fræðslustarfi sé sinnt í stjórnsýslunni. Það er greinilegt, bæði í þessari skýrslu og í fyrri skýrslum sem hafa komið frá umboðsmanni, að fjölmörg mál sem koma upp og umboðsmaður gerir athugasemdir við eru þess eðlis að einfaldlega skortir lágmarksfræðslu í stjórnsýslunni. Í því samhengi er auðvelt að benda t.d. á að fjölmörg verkefni hafa verið að færast yfir til sveitarstjórnarstigsins og því er mikilvægt að fræðslustarfinu sé sinnt um leið og starfsmenn sveitarstjórnarstigsins taka við nýjum verkefnum. Í þessu samhengi erum við e.t.v. annars vegar að tala um lágmarksfræðslu fyrir þá sem hefja störf í stjórnsýslunni og hins vegar símenntun eða endurmenntun sem þarf að vera til staðar. Þá er jafnframt mikilvægt að þekking og kennsluaðferðir séu samræmdar og þekking safnist saman á einum stað þar sem henni er síðan miðlað áfram.

Ég vil að lokum þakka umboðsmanni sérstaklega fyrir afar skýra og greinargóða skýrslu. Það hafa verið gerðar minni háttar breytingar á framsetningu tölfræðiupplýsinga í skýrslunni sem ég tel að séu af hinu góða.