131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2003.

[18:07]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Það hefur verið komið víða við í þessum umræðum. Má segja að rauði þráðurinn í því sem hér hefur verið sagt sé sá að Ríkisendurskoðun hafi staðið vel að sínum málum. Það hefur verið nokkuð minnst á það að Ríkisendurskoðun var rekin með nokkrum halla á árinu 2003 og er það rétt. En síðan hefur Ríkisendurskoðun tekið á þeim málum og var rekin án halla á síðastliðnu ári sem er kjarni málsins. Það hafði auðvitað í för með sér nokkurn samdrátt á umfangi verka hennar eins og komið getur fyrir. En ég hygg að það hafi ekki komið að sök.

Ég vil fyrst nefna það sem fram kom í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar að hann talar um að Ríkisendurskoðun hafi staðið vel að sínum málum en þó hafi verið alvarlegar brotalamir í hennar starfi þá byggir þetta á því að hann horfir öðruvísi til Ríkisendurskoðunar en Ríkisendurskoðun þykir eðlilegt að starfa. Erum við þá að tala um eftirlit Ríkisendurskoðunar með einkavæðingu ríkisstofnana. Úttektir Ríkisendurskoðunar á sölu fyrirtækjanna hafa verið í samræmi við þau meginmarkmið sem stefnt var að með sölunni og um þau vinnubrögð sem þar skyldi viðhafa og að því lúta athugasemdir Ríkisendurskoðunar. En svo geta einstakir þingmenn og einstakir stjórnmálaflokkar haft önnur viðmið og aðrar skoðanir á því hvernig rétt sé að meta árangur einkavæðingarinnar. Þá erum við farin að tala um pólitísk málefni en ekki hina venjulegu endurskoðun eins og hún er hugsuð og að henni staðið. En ég hygg að segja megi að Ríkisendurskoðun hafi unnið í samræmi við alþjóðlega staðla að endurskoðun sinni í þessum efnum.

Það hefur verið gagnrýnt — ég tók sérstaklega eftir því hjá hv. 10. þm. Suðurk., Jóni Gunnarssyni, að hann gagnrýndi það — að þessi skýrsla skyldi ekki tekin fyrr til umræðu og var svo á honum að heyra að það hefði með einhverjum hætti staðið í vegi fyrir því að eðlilega hafi verið hægt að meta skýrsluna, draga af henni lærdóma. Ekki áttaði ég mig á því í hans máli að svo hafi verið. Það þarf þá að útskýra betur. Skýrslan kom fram í aprílmánuði og þingmenn sem lásu hana vel gátu vel áttað sig á efni hennar og umfangi og það sem hér hefur komið fram við þessar umræður hefur ekki skýrt inntak skýrslunnar neitt frekar en hún gerir sjálf. Ég átta mig því ekki alveg á því hvað hv. þingmaður átti við.

Á hinn bóginn er það rétt að af sérstökum ástæðum, þar sem þingmannanefnd hélt til Japans á þeim sama tíma nú á þessu hausti sem ætlað var að umræður yrðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis, þá er þetta dregið fram yfir áramót og ég vænti þess að það hafi ekki komið að sök. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort rétt sé að ræða þessar skýrslur samtímis, skýrslu umboðsmanns og starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar. Þeirri venju hefur verið fylgt á Alþingi. En út af fyrir sig er ekkert því til fyrirstöðu að hafa annan hátt á því og má vel taka það til athugunar.

Í sambandi við það sem hér hefur verið sagt um einkavæðingu og sérstaklega kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni þá held ég að það sé misskilningur að ætla að Fjármálaeftirlitið eigi að hafa eftirlit með sölu á ríkisstofnunum hvort sem við erum að tala um banka eða aðrar ríkisstofnanir. Fjármálaeftirlitinu er ætlað að fylgjast með einkafyrirtækjum og sérstakri starfsemi, t.d. bankastarfsemi eða lánastarfsemi, fjárfestingarstarfsemi á frjálsum markaði. Ég get ekki séð að eðlilegt sé að slíkt eftirlit sé í höndum Alþingis frekar en Samkeppnisstofnun. Ég er ekki sammála því. Ég hygg að svo sé hvergi.

Ef við horfum sérstaklega til Samkeppnisstofnunar og þeirrar gagnrýni sem hér hefur komið fram þá hygg ég að það sé nú svo að störf hennar hafi ekki verið öll svo fullkomin að ekki megi gagnrýna þá stofnun frekar en önnur mannanna verk. Er næsta auðvelt í sumum greinum að benda á að þar hefði Samkeppnisstofnun betur staðið öðruvísi að verki, eins og t.d. þegar við horfum til þess að það hefur kostað um 40 millj. kr. að komast að þeirri niðurstöðu að tryggingafélögin brutu ekki samkeppnislög. Það er nokkuð vel í látið (Gripið fram í.) og má kannski velta vöngum yfir því af hverju stofnunin skuli ekki frekar hafa notað þessa peninga til þess að taka annars staðar á.

Það má líka velta fyrir sér, ef við tölum um samkeppnismál, hvernig í ósköpunum standi á því að ekkert skuli við því sagt að sömu aðilar eru að eignast öll fyrirtæki, t.d. á fjarskiptamarkaði, ef við horfum á útvarpsrekstur, og virðist sem allt önnur viðhorf gildi í þeim efnum þegar um fjölmiðla og ljósvakamiðla er að ræða en ýmsa aðra starfsemi eins og t.d. á sviði ferðaþjónustu eða samgangna, sem ég ekki skil. En augu manna eru nú óðum að opnast fyrir því að nauðsynlegt sé að eftirlit sé með því að hringamyndun sé ekki of mikil og menn eru smátt og smátt að átta sig á því að það á við um öll svið þjóðfélagsins og að menn geti ekki tekið eitthvert eitt svið þar út undan, eins og t.d. fjölmiðla. Menn eru svona smátt og smátt að átta sig á því. Það gengur hægt hjá sumum en þetta er nú að koma.

Mér þótti í því sambandi t.d. eftirtektarvert það sem hv. 5. þm. Norðvest., Guðjón A. Kristjánsson, sagði hér, að Samkeppnisstofnun ætti að athuga hvort bankarnir væru í nánu samráði hver við annan þar sem þeir byðu mjög lík kjör. Auðvitað hljóta bankar sem önnur fyrirtæki að elta hver annan ef þeir ætla að starfa á frjálsum markaði.

Spurningin er um úthald og spurningin er um getu. Það vita þeir sem hafa kynnt sér þá hluti. Á hinn bóginn hefur það alltaf verið vitað að við Íslendingar erum það fáir að á sumum sviðum hlýtur samkeppni að vera minni en æskilegt er. Þarf ég ekki að rökstyðja það.

Hv. þingmaður Jón Bjarnason talaði um að skýrslur ættu að fá formlega meðferð hér í þinginu. Nú er það svo að skýrslum Ríkisendurskoðunar er dreift til þingmanna um leið og þær koma út. Þingmenn geta tekið þær upp í viðkomandi þingnefnd ef þeir svo kjósa. Þingmenn geta tekið málið upp í umræðum um störf þingsins. Þingmenn geta einnig tekið slík mál upp með fyrirspurn með þinglegum hætti og þar fram eftir götunum. Þessar skýrslur er eðlilegt að ræða við umræður um ríkisreikning eða umræður um fjárlög þannig að það eru ótal tækifæri til þess að fjalla efnislega og formlega um þessar skýrslur. Á hinn bóginn get ég ekki skilið að Alþingi eigi að afgreiða þær með samþykkt eða synjun eða einhverjum slíkum hætti. Það finnst mér óeðlilegt, enda hefur komið í ljós að ef skýrslur Ríkisendurskoðunar hafa leitt í ljós að um óeðlilega hluti hafi verið að ræða hefur það oft kostað mjög mikla athugun hér á Alþingi og miklar umræður, líka meðan Ríkisendurskoðun var á sínum tíma undir fjármálaráðuneyti.

Vegna þeirra athugasemda sem hv. 2. þm. Reykv. s., Jóhanna Sigurðardóttir, gerði vil ég einungis segja það að þess er að vænta að skýrsla um aðkeypta sérfræðiþjónustu komi fljótlega. Um þá skýrslubeiðni sem laut að því hvernig staðið var að undirbúningi og uppsetningu á hugbúnaðarkerfum fyrir ríkisstofnanir er það að segja að það var ekki tímabært fyrr en nú að taka það mál til athugunar þar sem það þurfti að þróast og þroskast og menn þurftu að sjá fyrir endann á því verki. Ríkisendurskoðun mun á þessu ári taka það mál til meðferðar og skila skýrslu til Alþingis um það.