131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2003.

[18:22]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal talar hér um útúrsnúninga. Ég átta mig ekki alveg á hvernig það getur verið útúrsnúningur að lýsa þeirri skoðun að við séum seint að ræða ársskýrslu núna sem tilbúin var í apríl árið 2004. Hér komu ákveðnar skýringar á því af hverju brugðið var út af starfsáætlun Alþingis. Það er gott. Þær skýringar lágu mér ekki á lausu áður en ég fór í þetta andsvar. Hef ég ekkert við það að athuga að hæstv. forseti bregði sér af og til til útlanda. Ég held að flestir hafi gott af því að útvíkka sjóndeildarhring sinn aðeins.

Það er alveg rétt sem fram kom að við, þingmenn í fjárlaganefnd, höfðum þessa skýrslu undir höndum og gátum lesið það sem í henni var og nýtt okkur það sem fram kom í henni í störfum okkar, enda var brugðist við í fjárlögum fyrir árið 2005 og fjárframlög til Ríkisendurskoðunar aukin talsvert frá því sem hafði verið á árinu 2004. Ein af þeim ástæðum er það sem fram kemur í þessari ársskýrslu.

Ég saknaði þess þó að fá ekki svar við því sem ég spurði hér, og kannski af reynsluleysi mínu: Hefði ég ekki verið stoppaður af ef ég hefði ætlað að koma hér með mál sem byggt hefði beint á þessari ársskýrslu og vitnað til hennar í greinargerðum og tekið úr henni útdrætti áður en skýrslan hefði verið rædd hér formlega á Alþingi? Ef okkur þingmönnum er heimilt að nota upplýsingar sem fram koma í svona skýrslum sem á að taka formlega fyrir á Alþingi og koma fram með mál sem byggja beint á upplýsingum sem í þeim eru áður en skýrslan kemur formlega fyrir þing og er rædd hér er gott að fá að vita það. Auðvitað verða menn þá sneggri til að nota svona upplýsingar og koma með þær beint hingað inn í þingsal.