131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2003.

[18:24]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Bara svona til upprifjunar, ég skýrði frá því áður en hv. þingmaður kvaddi sér hljóðs og veitti andsvar við ræðu minni hvernig á því stóð að ekki var talað fyrir málinu fyrr en nú. Getur hv. þingmaður flett því upp í þingtíðindum þegar þar að kemur ef honum svo sýnist, ef hann vill fara að athuga hver sannleikurinn sé í því efni. Það er auðvitað algjört aukaatriði.

Um hitt er það að segja að þingmenn mega vitna í hvað sem þeim sýnist, prentað mál, prentað mál í ræðu með leyfi forseta. Ef þingmenn leggja fram þingmál mega þeir auðvitað vitna í prentað mál að vild. Ef fjárlaganefnd er að störfum og fyrir liggur skýrsla Ríkisendurskoðunar er einstökum fjárlaganefndarmönnum heimilt auðvitað að vitna í skýrsluna á fundum nefndarinnar og þar fram eftir götunum. Það er auðvitað heimilt líka núna eftir að málið hefur verið tekið fyrir að leggja fram fyrirspurn með þinglegum hætti um einstök atriði í skýrslunni ef hv. þingmaður óskar eftir að fá þar skýrari upplýsingar.

Fyrir þessu þingi liggja ókjör af skjölum sem ekki hefur enn unnist tími til að taka fyrir með formlegum hætti, ótal þingsályktunartillögur og frumvörp frá einstökum þingmönnum. Auðvitað er heimilt að vitna í öll þessi skjöl ef þingmenn svo kjósa, hægt að spyrja um hvað því líði að málin séu tekin fyrir í umræðum hér í salnum um störf þingsins og þar fram eftir götunum. Hér á Alþingi er með engum hætti reynt að takmarka tillögufrelsi eða málfrelsi alþingismanna.