131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Upplýsingar um Íraksstríðið.

[13:38]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum komin til þings, klukkan er hálftvö og hafnir eru fastir liðir eins og venjulega. Stjórnarandstaðan kemur af stað umræðum um Íraksmálið. Ekkert nýtt. Það er spurning, virðulegi forseti, hvort ætti að fara að kalla þennan dagskrárlið upp á nýtt, ekki umræður um störf þingsins heldur umræður um hinn fasta lið eins og venjulega.

Sannleikurinn er nefnilega sá að þegar maður fer yfir þessa umræðu, skoðar hana í ljósi tveggja síðustu ára sem liðin eru frá því að innrásin í Írak átti sér stað, þá er það nákvæmlega sama og sagt var fyrir tveimur árum sem menn endurtaka úr þessum ræðustól. Ég er með útskrift af viðtali við hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég er með útskrift af viðtali við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon úr Morgunblaðinu 21. mars 2003. Það mætti halda að þetta viðtal hefði verið tekið á þessum degi í dag vegna þess að það er nákvæmlega sama sem verið er að klifa á. Það er ekkert nýtt. Það er eingöngu reynt að halda lífinu í þessari umræðu og klifa á því sama. Það er ekkert sem verið er að leggja fram.

Hér er búið að upplýsa að það sem íslensk stjórnvöld voru að gera var það sama og stjórnvöld gerðu meðal nágrannaþjóða okkar. Það er ekkert nýtt sem hefur komið fram. Það er einfaldlega þannig að nú liggur það fyrir að stjórnarandstaðan lagði fram þingmál haust eftir haust til að mótmæla því að verið væri að beita viðskiptaþvingunum gegn harðstjóranum í Írak. Það mátti sem sagt ekki.

Það liggur fyrir að fundið var að því að reynt væri að beita áhrifavaldi og diplómatískum aðgerðum til að koma harðstjóranum frá. Nú liggur það fyrir að það mátti ekki og við vitum að það mátti heldur ekki fara með hervaldi gegn þessum manni. Það er eitt sem stjórnarandstaðan virðist þó hafa sameinast um að hafi mátt og átt að gera: Hrófla ekki við Saddam Hussein. Það er eina niðurstaðan sem við fáum eftir tveggja ára linnulausa umræðu þar sem hlutirnir eru endurteknir sí og æ.