131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Upplýsingar um Íraksstríðið.

[13:42]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Enn einu sinni kemur stjórnarandstaðan hér og byrjar að ræða Írak og er hugmyndaauðgi hv. stjórnarandstöðu um nálgun á þessu máli alveg með ólíkindum og öll meðul eru notuð. Nú hefur það gerst m.a. að hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hafa fullyrt það að ákvörðun í mars sl. um að leyfa ef til kæmi yfirflug yfir Ísland og notkun á Keflavíkurflugvelli væri stefnumarkandi, þetta væri ný stefna fyrir Íslendinga og það bæri að taka alvarlega.

Virðulegur forseti. Annaðhvort eru hv. þingmenn vísvitandi að segja ósatt eða þeir vita ekki betur. Sé farið að fenna yfir minnið er rétt að minna á það að þegar alþjóðasamfélagið fór inn í Bosníu 1994 var leitað til íslenskra stjórnvalda um það sama. Yfirflug yfir Ísland og hugsanlega notkun á Keflavíkurflugvelli og íslenska ríkisstjórnin samþykkti það. Hverjir skyldu hafa setið þá í ríkisstjórn? Má þar nefna til að mynda hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þáverandi hæstv. ráðherra. (Gripið fram í: Það er ekki hægt að bera þetta saman.) Og það má fara enn lengra aftur. Fyrst þegar alþjóðasamfélagið nálgast Írak, þ.e. 1990, er leitað til íslenskra stjórnvalda um yfirflug og hugsanlega notkun á Keflavíkurflugvelli og íslensk ríkisstjórn samþykkti það. Hverjir sátu þá í ríkisstjórn? Þar má nefna m.a. hæstv. þáverandi ráðherra, Steingrím J. Sigfússon. Svo kemur þetta lið hér og talar um stefnumörkun. Maður hlýtur að spyrja: Hvað vakir fyrir fólki, ekki síst samfylkingarfólki með háttarlagi sínu? Er það vísvitandi að halla réttu máli? Er það vísvitandi að bera ósannindi á borð fyrir þjóðina? Er það búið að gleyma staðreyndum eða er verið að velta þjóðinni upp úr vaxandi skjálfta í formannsslaginn? Hver sem skýringin er er hún óeðlileg og ég skora á hv. formann Samfylkingarinnar að beita sannleikanum.