131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Upplýsingar um Íraksstríðið.

[13:45]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það stendur í Morgunblaðinu í dag, haft eftir Eiríki Tómassyni sem hér var mjög vitnað til í gær, að ákvörðun forsætisráðherra og utanríkisráðherra á sínum tíma um stuðning við aðgerðirnar í Írak, sem hér er um deilt, hafi falist í þrennu. Annar liður þess er, með leyfi forseta, „að veita aðgang að íslenskri lofthelgi og heimild til að nota Keflavíkurflugvöll ef nauðsyn krefði vegna aðgerða í Írak“.

Nú kemur hins vegar í ljós að þessi ákvörðun virðist hafa verið tekin þrem vikum áður án þess að bera hana undir einn eða neinn. Það er auðvitað þar sem hnífurinn stendur í kúnni, að forsætisráðherra og utanríkisráðherra báru þetta ekki undir einn eða neinn. Þeir hafa fengið Eirík Tómasson, og telja að Eiríkur Tómasson hafi nú sýknað þá af þeirri ákæru sem ég hef vissulega haft hér í frammi um það að núverandi hæstv. forsætisráðherra og þáverandi utanríkisráðherra hafi brotið þingsköp með því að ráðgast ekki við utanríkismálanefnd um þau mál sem þeir áttu að ráðgast við um.

Það sem Eiríkur hefur sagt — jú, það er mat. Hann hefur búið til leið fyrir hæstv. núverandi forsætisráðherra til þess að losna úr þeirri klemmu sem hann er í. Það fer þannig fram, sú leið er þannig að ef hæstv. forsætisráðherra og þáverandi utanríkisráðherra telur það hafa verið minni háttar utanríkismál að lýsa yfir þeirri ákvörðun að styðja innrásina í Írak er hann sloppinn. Ég vil þess vegna biðja hæstv. forsætisráðherra að koma hér á eftir og segja okkur frá því hvort hann ætlar að notfæra sér þessa litlu leið, þessa litlu holu sem Eiríkur Tómasson, formaður aðstoðarnefndar stjórnarskrárnefndar, í vinnu hjá hæstv. forsætisráðherra, hefur búið til handa honum, með því að lýsa yfir að þessi ákvörðun hafi verið minni háttar utanríkismál.

Ef það er ekki minni háttar utanríkismál, ef það er meiri háttar utanríkismál, átti hæstv. forsætisráðherra, þáverandi utanríkisráðherra, að bera þetta undir nefndina og engar refjar. Því getur hann ekki neitað. Hvað sem hann verður margsaga í málinu stendur það eftir að hæstv. utanríkisráðherra, þáverandi, sem vissulega hafði vald — það hefur enginn efast um það — til að taka ákvörðunina með hvaða hætti svo sem hann kysi að gera það (Forseti hringir.) átti að bera það undir utanríkismálanefnd. Það er það sem stendur upp á (Forseti hringir.) þennan mann sem hér situr, hæstv. ráðherra.