131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Upplýsingar um Íraksstríðið.

[13:52]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmenn stjórnarliðsins kvarta og kveina undan því að þurfa að taka þátt í umræðu um Írak. En það er til leið fram hjá þessum þrálátu spurningum stjórnarandstöðunnar sem hafa vakað sl. tvö ár. Þessi leið felst í því að hæstv. forsætisráðherra eða talsmenn stjórnarinnar lýsi því yfir að farið verði í þá rannsókn á tildrögum ákvörðunar um stuðning við innrásina í Írak sem lögð er fram tillaga um í þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar. Hæstv. forsætisráðherra og aðrir talsmenn ríkisstjórnarinnar voru á hröðum flótta undan þeirri tillögu alla síðustu mánuði fram að jólum.

Ef sú tillaga yrði samþykkt yrðu öll þessi málsatvik upplýst. Svar hæstv. forsætisráðherra hér áðan gefur enn frekari tilefni til þess að krefjast þessarar rannsóknar. Hæstv. forsætisráðherra treysti sér ekki til þess að svara spurningunni sem ég beindi til hans. Spurningin var þessi: Er það rétt sem draga má ályktun af af staðfestingu utanríkisráðuneytisins í gær að Bandaríkjamönnum hafi með einhvers konar hætti verið tjáð þremur vikum fyrr en hæstv. forsætisráðherra hefur gefið til kynna að raunin hafi verið að Ísland mundi styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak? Þetta er lykilspurning.

Það er alveg ljóst að listinn var notaður sem pólitískt vopn, sem pólitísk vörn gagnvart umheiminum, gagnvart Sameinuðu þjóðunum til að verja innrásina. Ef Ísland hefði ekki verið á listanum, ef engin hinna 30 vígfúsu þjóða hefði verið á listanum hefði að öllum líkindum engin innrás orðið. Þá væru 100 þús. saklausir Írakar sem hafa farist í kjölfar innrásarinnar enn á lífi. Þetta er hin siðferðilega ábyrgð sem við berum öll sem þjóð — vegna þessa. (Forseti hringir.) Þess vegna verður að upplýsa öll málsatvik.