131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Almenn hegningarlög.

409. mál
[13:59]

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.

Hér er fyrst og fremst kannski verið að samhæfa og laga almenn hegningarlög að öðrum lögum í svipuðum málaflokkum varðandi sekt og vararefsingu og er það í rauninni bara vel. Við sjáum að núna er komin vararefsing upp á 20 daga fangelsi þannig að búið er að hækka það upp ef sektin er allt að 300.000 kr.

Þetta er í rauninni til samræmis bæði við lög um meðferð opinberra mála og umferðarlög og eru þegar komnar reglugerðir sem lúta að því sama og hér stendur. Núna fer þetta mál til meðferðar í hv. allsherjarnefnd og við munum að sjálfsögðu skoða mikilvægi samræmingar á ýmsum lögum og reglugerðum þessu tengdum þannig að ég sé ekki betur en að hér sé um hið besta mál að ræða. Við munum eflaust sækjast eftir umsögnum um málið og sjá hvort eitthvað er hægt að skoða í víðara samhengi.