131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[14:26]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú aðallega að standa upp til að mótmæla þeim orðum sem hér hafa fallið um að þetta frumvarp sé illa undirbúið. Það er það alls ekki. Frumvarpið er alveg skýrt og markmið þess er skýrt en það er að sjálfsögðu ágreiningur um það eins og mörg önnur mál í þinginu. Við vitum að vinstri flokkarnir vilja auka útgjöld hins opinbera og þeim er sama hvað hlutirnir kosta í raun og veru. Þeir vilja bara að útgjöldin aukist en við hinir viljum að spornað sé við útgjaldaaukningunni og þetta frumvarp er liður í því.

Það er einnig rangt sem kemur fram í niðurstöðum minni hlutans að ekki hafi verið haft samráð við gjafsóknarnefnd við undirbúning þessa máls. Það var gert og ég skil ekki hvernig í ósköpunum þingmenn setja slíkan texta inn í álit ef þeir vilja á annað borð láta taka mark á sér.

Í þessu frumvarpi er ekkert verið að hrófla við hinum fjárhagslegu viðmiðunum sem hafa verið í gildi og það er ekkert verið að breyta þeim. Það er því rangt að gefa til kynna að hér sé verið að þrengja eitthvað að því er það mál varðar.

Síðan er það auðvitað sjónarmið út af fyrir sig að sem flest mál eigi að vera fyrir dómstólunum og hið opinbera eigi að standa undir öllum kostnaði sem mönnum dettur í hug að stofna til í því skyni að fara með mál sín fyrir dómstólana og svo sem eðlilegt að lögmenn séu talsmenn þess að hið opinbera borgi þann kostnað og ýti þannig undir störf lögmanna. En það eru ekki heldur röksemdir sem eru haldbærar í umræðum af þessum toga og ekki haldbært að koma með það sem sjónarmið inn á Alþingi að það eigi að standa þannig að lagasetningu að menn fari umhugsunarlaust í málaferli vegna þess að einhverjir aðrir greiði kostnaðinn fyrir þá.