131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[14:28]

Frsm. minni hluta allshn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að halda mig við þá skoðun að ég tel þetta frumvarp vera illa unnið. Það kom fram að þetta er í annað skipti sem frumvarpið er lagt fram. Þetta mál var lagt fram á síðasta þingi en varð ekki útrætt. Þá kom fram á fundi allsherjarnefndar varðandi frumvarpið sem lagt var fram á því þingi, en það frumvarp er efnislega svo að segja eins og það frumvarp sem hér er um að ræða, að ekki hafi verið haft samráð við gjafsóknarnefnd. Það má vel vera að dómsmálaráðuneytið hafi haft samráð við gjafsóknarnefnd í millitíðinni áður en þetta frumvarp kom fram, en hins vegar þegar fyrsta frumvarpið kom fram voru þetta upplýsingar sem við fengum í allsherjarnefndinni.

Að sama skapi vitnaði ég beint í orð hæstv. dómsmálaráðherra um að sparnaðurinn af þessu frumvarpi er óljós. Það kemur bæði fram í svari hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Jónínu Bjartmarz og sömuleiðis kemur það fram í frumvarpinu sjálfu. Ég tel að frumvarp sem hefur það að markmiði að spara almannafé og hefur það ekki á tæru hvað það sparar mikið sé ekki vel unnið.

Hæstv. dómsmálaráðherra talaði um að ég hefði gefið í skyn að hér væri verið að setja einhvers konar þrengingar. Hér er að sjálfsögðu um þrengingu að ræða, það er verið að afnema heilan lið í einkamálalögunum sem lýtur að hinum almenna rétti, hinni almennu heimild að gjafsókn. Að sjálfsögðu er það þrenging á rétti til gjafsóknar að einstaklingar með hærri mánaðartekjur en 80 þús. kr. á mánuði hafi ekki rétt á gjafsókn lengur eins og staðan er í dag. Það er að sjálfsögðu þrenging.

Það er líka að mínu mati útúrsnúningur og hártogun að benda á það sem röksemd að vegna þess að gjafsóknarmálum hafi fjölgað svo mikið undanfarið sé þessi leið nauðsynleg. Eins og komið hefur fram í öðrum fyrirspurnum sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur svarað eru gjafsóknarmál sem veitt eru á grundvelli b-liðar, sem hér er verið að afnema, (Forseti hringir.) brotabrot af þeim heildarfjölda gjafsóknarmála sem um er að ræða. Þetta mun því ekki sporna við fjölgun gjafsóknarmála nema að örlitlu leyti.