131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[14:30]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnast það mjög einfeldningsleg og barnaleg rök í máli þegar lagt er til að gera ráðstafanir til að sporna við útgjöldum ríkissjóðs að þá sé þess krafist af mönnum að þeir upplýsi hve mikið verði sparað. Hver veit hver þróunin yrði ef haldið yrði áfram á sömu braut? Hvernig ætlar hv. þingmaður að svara þessari spurningu sjálfur? Svona barnaskapur í ræðustól á Alþingi er fyrir neðan allar hellur og að hann skuli fluttur um leið og dóms- og kirkjumálaráðuneyti og embættismenn þess og gjafsóknarnefnd og aðrir sem komið hafa að gerð frumvarpsins eru sakaðir um óvönduð vinnubrögð að þá komi hv. þingmaður upp og tali með þessum barnalega hætti um þetta alvarlega mál.

Það er ekki verið að hrófla við neinum viðmiðunum. Það er ekki verið að breyta neinum viðmiðunum að því er varðar tölulegar forsendur fyrir gjafsókn. Eins og ég sagði þegar ég flutti frumvarpið í þinginu er verið að búa þannig um hnútana að þeir fjármunir sem ríkissjóður ætlar til gjafsóknar nýtist þeim sem í raun og veru þurfa á þeim fjármunum að halda til að höfða mál og gæta réttar síns. Verið er að standa þannig að því við ráðstöfun á þessu fé að það nýtist þeim sem þurfa á þeim fjármunum að halda til að gæta réttar síns. En hv. þingmaður talar eins og að haga beri þessum málum á þann veg að hér sé einhver ótæmandi sjóður sem allir geti gengið í ef þeim dettur í hug að fara í mál, þá eigi bara hið opinbera að greiða og allur málflutningur hans snýr að því. Það er rökleysa finnst mér að ganga fram á þann veg sem hv. þingmaður gengur fram í málflutningi sínum.

Að sjálfsögðu hafa ákveðnar takmarkanir verið í gildi og alls staðar eru í gildi ákveðnar takmarkanir um þetta mál og mál af þessum toga. Hvergi í heiminum geta menn gengið í opinbera sjóði og farið fram á greiðslur úr þeim, sama hvaða mál þeir höfða og gegn hverjum það er höfðað.