131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:29]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er til 2. umr. frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma. Við erum farin að tala um farsíma í kynslóðum. Þá minnumst við náttúrlega orða skáldsins sem sagði: „Kynslóðir koma og kynslóðir fara.“ Kannski getum við líka sagt það um þessi fjarskipti. Vonandi skilur hver kynslóð eftir einhver verðmæti til þeirrar næstu, gerir líf okkar betra og betra. Það hlýtur að vera hlutverk hverrar kynslóðar og væntanlega er það líka hlutverk þeirrar þriðju kynslóðar farsíma sem við tölum um. Víst er það svo að markmiðið með þessari farsímatækni, sem hefur fengið þetta skrýtna nafn „þriðja kynslóð farsíma“, er að auka enn hraðann í gagnaflutningum, auka möguleika á flutningi á magni af gögnum á sem skemmstum tíma og auk þess fjölbreyttari. Það er t.d. óneitanlega skemmtilegt fyrir einhverja að geta sent út mynd af sjálfum sér meðan talað er í símann og fá að horfa á viðmælandann líka í mynd, að sjálfsögðu gæti það verið skemmtilegt. Hins vegar verður maður náttúrlega að velta fyrir sér hversu dýru verði það er keypt. En þetta er einmitt það sem verið er að velta fyrir sér í sambandi við þriðju kynslóð farsíma.

Þá er líka vert að huga að þeirri umgjörð sem við búum við á Íslandi. Það er voðalega gaman að hugsa sér að vera endalaust stór og endalaust fjölmennur, en þegar við förum yfir í raunveruleikann þá erum við bara um 300 þús. manns í gríðarlega stóru landi og markmið okkar er jú að ein þjóð búi í landinu hvar sem hún er. Þá einhvern veginn verða allir þessir draumar, sem hugsanlega er hægt að uppfylla í milljónaþjóðfélögum þar sem búið er þétt saman og vegalengdir eru stuttar, það eru ekki sambærilegar aðstæður sem við berum saman hlutina á.

Það er mitt mat að það sé einmitt sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir þegar við ræðum frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma. Hún hefur áður verið til umfjöllunar á þingi og er einnig komin til framkvæmda sums staðar í öðrum löndum í heiminum.

Þær upplýsingar sem við fengum í samgöngunefnd einmitt um útbreiðsluna og mikilvægi þessa farsíma voru dálítið á þann veg að ekki væri ástæða til þess að flýta sér stórkostlega. Bæði aðalfjarskiptafyrirtækin, Síminn og fyrirtæki sem heitir núna Og Vodafone, en hefur heitið ýmsum nöfnum í gegnum tíðina, bentu á að það væri mjög gott að ekki skuli enn hafa verið innleidd lög um þriðju kynslóð farsíma vegna þess að umhverfið hafi verið með þeim hætti að það hefði verið óheppilegt að fá þau innleidd. Þegar einnig var spurt að því hvernig gengi til í öðrum löndum að innleiða þessa þriðju kynslóð farsíma komu þær upplýsingar fram að hinir nýju notendur sem hugsanlega taka þessa notkun upp eru þeir sem nú þegar hafa GSM-farsíma og nota mikið GSM-farsímaþjónustuna. Þeir séu þeir fyrstu sem taki upp þriðju kynslóð farsíma sem þýðir að í raun séu ekki að bætast við notendur á markaðnum heldur neyslan bara að færast til.

Það var athyglisvert að heyra sagt frá því að t.d. í Bretlandi, sem er býsna þéttbýlla en Ísland og með styttri vegalengdir, var búið að innleiða þriðju kynslóð farsíma með miklum væntingum um að hún mundi stórauka afkastagetu fjarskiptamála í landinu og þar af leiðandi stuðla að auknum hagvexti og bættum samskiptum öllum. Þá komu þær upplýsingar fram að það hefði ekki gengið betur en svo að enginn hefði viljað taka þessa þjónustu upp. Búið var að fjárfesta gríðarlega mikið í henni og það er jú neytandinn sem verður að borga, það eru engir aðrir sem borga, búið var að fjárfesta og engir vildu taka þetta upp eða svo fáir að það stóð engan veginn undir þeim kostnaði sem búið var að leggja í.

Þá var gripið til þess, því það var náttúrlega sama fyrirtækið sem rak venjulega GSM-farsímaþjónustu og þriðju kynslóðar farsíma, að leggja kostnaðinn við innleiðingu þriðju kynslóðar farsíma ofan á almenna GSM-notendur, sem höfðu aldrei ætlað sér að fara út í þessa þriðju kynslóð farsíma. Samkvæmt þeim upplýsingum sem gefnar voru í nefndinni hafði kostnaðaraukinn sem velt var út á almenna GSM-símanotendur aukist um 20% til að bera uppi fjárfestinguna við þriðju kynslóð farsíma sem þessir notendur ætluðu sér aldrei að nota eða voru ekki a.m.k. á því stigi reiðubúnir að nota.

Annars staðar í heiminum hefur útbreiðslan gengið mun treglegar og alls ekki staðið undir þeim væntingum sem gerðar voru þegar verið var að fara í herleiðinguna að tala fyrir þriðju kynslóð farsíma. Reyndar hafa mörg fjarskiptafyrirtæki farið illa á því að ráðast í miklar fjárfestingar á þessu sviði án þess að fá þær bornar uppi af neytendum á þeim hraða sem þeim var nauðsynlegur til þess að geta staðið undir þjónustunni fjárhagslega og hafa farið á hausinn. Allmörg fjarskiptafyrirtæki hafa einmitt ætlað sér að vera sporgönguaðilar í þriðju kynslóð farsíma og mátt bíta í það súra epli að þau höfðu hlaupið of hratt og orðið að leggja upp laupana, sem er líka skaðlegt því engir aðrir borga þann herkostnað en neytendur. Menn mega því gæta sín og ganga hægt um og ekki hraðar en samfélagið er viljugt og bært til að bera, annars eigum við á hættu að sú þjónusta sem fyrir er geti orðið blóraböggull eða taki skaða af einmitt þriðju kynslóð farsíma eins og ég hef rakið.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur farið yfir þær breytingartillögur við frumvarpið sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Kristjáni L. Möller og Guðjóni A. Kristjánssyni. Þar leggjum við til að það sé ekkert verið að flýta sér að taka lögin í gildi. Setja eigi inn frestunarákvæði um gildistökuna, ekki fyrr en eftir 1. janúar 2007, sjá hver framvindan verður. Þingið getur þá gripið inn í og breytt þeim lögum. Það er allt í lagi að setja þessa lagaumgjörð með einhverjum hætti en að hún komi ekki til framkvæmda fyrr en að meira en tveimur árum liðnum og þá verði metið hver þróunin verður á tímabilinu. Það er ekkert sem hastar af hálfu Íslendinga að taka þetta upp.

Í öðru lagi leggjum við áherslu á að þegar ráðist er í að byggja upp fjarskiptaþjónustu sé miðað við það og sú stefnumörkun alveg klár að hún eigi að ná til allra landsmanna. Við erum jú ein þjóð og ef verið er að byggja upp fjarskiptaþjónustu, hvort sem það er sími, gagnaflutningar, GSM-farsímaþjónusta eða þriðja kynslóð farsíma, ef hún er eins góð eins og væntingar benda til á hún náttúrlega að gagnast öllum þegnum landsins, ekki bara nokkrum. Í frumvarpinu eins og það liggur fyrir er eiginlega gert ráð fyrir því að setja ekki meiri kvaðir á fjarskiptafyrirtækin en að þau uppfylli að 60% íbúa á landinu — að vísu dreift eftir landinu öllu — geti náð þjónustunni, það sé lágmarkskrafa og fyrir þá eigi að taka upp þennan starfsrekstur og síðan geti þeir fengið afslátt ef þeir fara upp fyrir 60% en afslátturinn er búinn við 75% notenda.

Við viljum setja markið hærra, að fyrirtækjum sé skylt sem vilja fara í þetta að ná a.m.k. til 75% notenda dreifðra um landið, þannig að það séu ekki bara notendur á höfuðborgarsvæðinu heldur séu 75% notenda í dreifbýli úti um land allt, að það sé sett sem lágmark og síðan veittur afsláttur ef menn fara umfram það af þeim gjöldum sem ríkið tekur fyrir að veita þessi leyfi. Það sé því raunverulegur hvati og kvöð að fjarskiptafyrirtækin sem hugsanlega fara út í að byggja upp kerfið nái til allra landsmanna, markið sé sett á að þau nái til svo til allra landsmanna, það sé höfuðmarkmiðið.

Það er einmitt fróðlegt í þessu sambandi að vitna til umsagna sem komu um frumvarpið, annars vegar frá Alþýðusambandi Íslands sem ég vil vitna til, með leyfi forseta:

„Almennt má segja að á Íslandi hafi ekki ríkt virk samkeppni á fjarskiptamarkaði. Aðstæður á markaðnum hafa að vísu breyst mikið á undanförnum árum og hafa mörg fyrirtæki fengið rekstrarleyfi. Síðustu tvö ár hefur á hinn bóginn orðið samþjöppun og nú er svo komið að aðeins tvö fyrirtæki eru eftir á farsímamarkaðnum. Það er því erfitt að sjá að virk samkeppni muni ríkja við úthlutun tíðna fyrir þriðju kynslóð farsíma. Íslenskur fjarskiptamarkaður er fámennur í alþjóðlegum samanburði jafnframt því að hann er mjög dreifður og kostnaður við uppbyggingu dreifinetsins er mikill. Það er því ekki á færi nema örfárra fyrirtækja að bjóða þjónustu fyrir þriðju kynslóð farsíma. Það er því fyrirsjáanlegt að áfram muni ríkja fákeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði.“

Ég held að það sé mjög hollt að við áttum okkur á þessum veruleika, að samkeppniskrafturinn drífur ekki að þjónustan fari til allra landsmanna heldur verði að vera þjónustukvöð á viðkomandi fyrirtækjum um að þau sinni öllu landinu og öllum landsmönnum.

Það er líka ágætt að vitna til umsagnar Og Vodafone um sama mál, með leyfi forseta:

„Það er fátt sem bendir til þess að sú fjárfesting sem þarf til að uppfylla þau ströngu skilyrði sem koma fram í frumvarpi því sem hér er til umsagnar standi undir sér. Mikil óvissa er um arðsemi af þriðju kynslóð farsímakerfa. Fyrst um sinn má ætla að notendur í þriðju kynslóðar kerfum verði núverandi GSM-notendur. Þetta þýðir litla sem enga aukningu á heildartekjum af farsímanotkun. Það er því með öllu óljóst hvort tekjur af þriðju kynslóðar þjónustu verði það miklar að þær réttlæti fjárfestingu í þriðju kynslóðar kerfum.

Þriðja kynslóð farsímaneta er ekki að leysa neina grundvallarþörf sem ekki er hægt að leysa með annarri tækni og í raun er hættan sú að verði kröfur of háar um útbreiðslu þá muni það bitna á annarri þjónustu sem Íslendingar eru í forustu að veita.“

Þarna er jú ábending um hið sama og í umsögn ASÍ en einnig um að sömu fyrirtækin, eitt eða tvö fyrirtæki hér á landi, muni hugsanlega geta farið út í að byggja upp kerfið á þessum grunni. Þá er einmitt hætta á að áherslan færist frá því að tryggja dreifikerfi um allt land en beinist meira að því að ná til þeirra notenda sem eru á þéttbýlustu svæðunum og eru að mati fyrirtækjanna arðsömustu notendurnir. Áherslan færist því frá því að byggja upp núverandi kerfi, núverandi þjónustu, sem ekki er komin um allt land, í að byggja upp og taka upp samkeppni á aðalþéttbýlissvæðunum, þ.e. að fleyta stöðugt rjómann af viðskiptunum, af þjónustunni en gefa eftir eða standa ekki við að byggja upp þjónustu til allra íbúa landsins sem að mati fyrirtækjanna geta verið minna arðsamir.

Ég tel að einmitt þarna sé viss hætta í þessu. Ef við horfum til stöðunnar eins og hún er í dag þá skortir enn mikið á að uppbygging gagnaflutningskerfis út um allt land sé með viðunandi hætti þannig að jöfnuður sé, sanngjarn og eðlilegur jöfnuður milli íbúa landsins eftir búsetu hvað varðar gagnaflutningsmöguleika gegnum þessi fjarskiptakerfi. Við þekkjum öll GSM-útbreiðsluna, kröfuna um að fá GSM-símasamband í allar byggðir landsins og á aðalþjóðvegi landsins. Þar skortir enn gríðarlega mikið á. Að mínu mati er því miklu nær að beina orku sinni, styrk og allri athygli að því að byggja upp þá þjónustu og tækni sem nú þegar er fyrir hendi, þannig að hún komist til allra landsmanna á jafnræðisgrunni og hugmyndir um uppsetningu þriðju kynslóðar farsíma geta orðið til þess að draga úr athygli á því verki sem þar er óunnið, en brýnt er að verði tekið á.

Eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gerði grein fyrir þá leggjum við til, hv. þingmenn Guðjón Arnar Kristjánsson, Kristján L. Möller og sá sem hér stendur, að bundið verði í lögum að aðeins neytendur hins nýja kerfis greiði fyrir það, að það sé ekki hægt að velta kostnaðinum við þetta nýja kerfi yfir á aðra símnotendur sem gætu hvort eð er ekki einu sinni orðið aðilar að því vegna staðsetningar sinnar eða hafa ekki vilja til þess. Það er mjög ósanngjarnt að hafa þetta með þeim hætti að þeir notendur núverandi kerfa verði skikkaðir til þess að greiða þjónustuna niður, eins og við fengum upplýsingar um að hafi orðið að gera í Bretland því annars væri þetta vonlaust. Og kannski er það þannig í fleiri löndum.

Það er því alveg lágmark að bundið sé í lögum að ekki megi sækja kostnað vegna þessa nýja kerfis til annarra en notenda sem það hafa.

Herra forseti. Það væri hægt að tala hér um fjarskiptamálin almennt enn meir og leggja aukna áherslu á að verkefni okkar nú er fyrst og síðast að byggja upp öflugt fjarskiptakerfi, gagnaflutningskerfi og símkerfi um allt land, til allra íbúa landsins, þannig að þar ríki fullkominn jöfnuður og jafnrétti hvað það varðar. Á það skortir mikið og við eigum að einhenda okkur í það verkefni en vera ekki að fara út í ævintýri eins og þriðju kynslóð farsíma sem af þeim upplýsingum sem hafa komið fram passa engan veginn við núverandi aðstæður hér á landi og þess vegna ætti að fresta því um nokkur ár til að sjá hver framvindan verður á því sviði.