131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[16:11]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að hér var mjög sérstök málfundaræfing viðhöfð af hv. þingmanni sem síðastur talaði, talandi um bitlinga og svo spillingu í því samhengi sem hér er verið að fjalla um. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á hvaða leið hv. þingmaður var. Kann að vera að ástandið í Samfylkingunni og væntanlegar kosningar setji menn í þessar sérstöku stellingar? Það kann vel að vera og ég vona að (Gripið fram í.) hv. þingmenn Samfylkingarinnar jafni sig mjög fljótlega og komist á lygnari sjó.

Hér er til umfjöllunar frumvarp vegna úthlutunar þriðju kynslóðar farsíma eins og það er kallað. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað og fjallað um þetta mál í hv. samgöngunefnd fyrir ágæta umfjöllun og vinnu í nefndinni. Að vísu er hér komin fram breytingartillaga sem ég mun fjalla örlítið um. En starf nefndarinnar í kringum þetta mál er með ágætum.

Ég vil segja að ég tek út af fyrir sig undir það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sagði í sinni ræðu, að það sé ekki áhugi á því að fara hratt. Við höfum satt að segja ekki farið hratt yfir í þessu máli til allrar hamingju. En nú hins vegar tel ég að stundin sé upp runnin. Ég tók þá ákvörðun á sínum tíma að flytja ekki frumvarp um úthlutun þriðju kynslóðar leyfa eins og ýmsir hvöttu mjög til á sínum tíma. Þá var hvatt til þess og vísað til þess sem var að gerast úti í Evrópu þar sem menn voru að bjóða upp, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson vill. Þá voru menn úti í Evrópu og reyndar um allan heim að bjóða upp þessi leyfi þriðju kynslóðar vegna þess að það voru miklar væntingar. Menn sáu í hillingum gróða ríkisins af því að selja þessi leyfi hæstbjóðanda og héldu að þessi markaður væri feiknarlega öflugur. En annað kom í ljós.

Hins vegar hefur þróunin á fjarskiptamarkaðnum verið mjög ör. Við höfum nýtt okkur upplýsingasamfélagið út í ystu æsar má segja. Við höfum nýtt koparinn og við höfum nýtt ljósleiðarana í fastlínukerfinu. Við höfum byggt upp GSM-símkerfi og þar áður NMT-farsímakerfið. Þetta hefur allt saman gerst á tiltölulega skömmum tíma. Á tíu árum hefur GSM-símkerfið verið að byggjast upp. Hvað sem þingmenn segja nú um að það þurfi að bæta um betur þá höfum við Íslendingar engu að síður á þessum árum lyft grettistaki í þessari uppbyggingu. Hvernig lýsir það sér? Það lýsir sér í því að þó víða þurfi að bæta úr GSM-símdreifikerfinu þá er notkun hér almennari og meiri en almennt gerist meðal þjóða.

Sama á við um tölvunotkunina og internetnotkunina. Notkun heimilanna og fyrirtækjanna á Íslandi á internetinu og öllu því sem því fylgir er meiri en almennt gerist. Við erum því í fremstu röð m.a. vegna þess hversu við vorum heppin með uppbyggingu þessara kerfa. Við Íslendingar höfum þess vegna nýtt okkur margmiðlunartæknina mjög ríkulega og við, bæði atvinnuvegirnir og heimilin, höfum hagnast á því að tileinka okkur þessa tækni svo mjög.

Hins vegar er þetta frumvarp hér til umfjöllunar og eru ekki miklar deilur um það. Ég fagna því. Ég valdi þann kost eins og ég sagði áðan að fara hægt en ég tel að nú sé rétti tíminn að skapa þessa umgjörð og ákveða hvernig við úthlutum þessum leyfum. Hér er sem sagt gerð tillaga um að það sé gert með útboði þannig að það sé algerlega gagnsætt og uppi á borðum hvernig þessi úthlutun fer fram, en með þeirri aðferðafræði er lögð áhersla á að fyrirtækin keppi um slík leyfi á forsendum þess að þau bjóði þjónustu, bjóði útbreiðslu og það sé hvatning fólgin í því að lækka gjaldið eftir því sem útbreiðslan eykst.

Eins og fram kemur í umsögnum við frumvarpið hafa símafyrirtæki sitthvað við þetta að athuga, telja að útbreiðsluhraðinn eða réttara sagt krafan sé of hörð. Ég hef ekki getað fallist á það, en ég tel hins vegar ekki skynsamlegt eins og sakir standa að fallast á þá breytingartillögu sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og fleiri flytja hér um að lágmarkskrafan sé 75%. Við höfum skoðað þetta mjög vandlega og við teljum að miðað við eftirspurnina og stöðuna sé eðlilegt að leyfa símafyrirtækjunum að byggja upp áætlanir sínar um þessa þjónustu. Ég tel hins vegar ekki ásættanlegt að fallast á þær óskir eða hugmyndir sem komu fram hjá símafyrirtækjum, að mér skilst í viðræðum við hv. samgöngunefnd, að gera upp á milli landshluta með því að taka gott og gilt annað kerfi en þriðju kynslóðar kerfið. Hvað um það. Ég tel að við séum að þessu leyti á réttri leið.

Ég get ekki fallist á þá tillögu sem kemur fram sem breytingartillaga að þessu verði frestað til 1. janúar 2007. Rökin fyrir því eru að ég tel að staðan sé sú núna að það séu miklu meiri líkur á því en áður að þetta hellist yfir okkur á Íslandi núna. Símafyrirtæki eru í stakk búin til að takast á við þetta, tæknin er komin nægilega langt til að líkur séu á því að símafyrirtækin fari að fást við þessa uppbyggingu. Ég tel að það muni auka verðgildi símafyrirtækjanna að hafa þessi leyfi á hendi og að engin óvissa sé ríkjandi gagnvart úthlutun þessarar þriðju kynslóðar, þannig að símafyrirtækin viti leikreglurnar og það sé alveg ljóst að hverju gengið er. Í því felst það sem ég segi að ég tel að það auki verðgildi símafyrirtækjanna að úthlutunaraðferðin sé klár. Þess vegna tel ég að ekki megi dragast lengur að úthluta þessu.

Hv. þingmenn hafa gert nokkuð að umtalsefni og velt fyrir sér í tengslum við frumvarpið, eins og vill verða og er eðlilegt, uppbyggingarhraðanum og þeim kröfum sem við gerum til fjarskiptakerfanna. Af því tilefni vil ég minna á hvað hefur verið gert í þessu af hálfu löggjafans, af hálfu samgönguráðuneytisins. Vegna orða hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar vil ég minna á að ákvæðin í fjarskiptalögunum sem gerðu mjög stífa kröfu um hraða, tengihraða sem miðast við ISDN-tæknina, voru einsdæmi á sínum tíma. Hvergi í löggjöf annarra ríkja var þessi krafa sett um þjónustu á fastlínukerfinu, þ.e. að tölvutengingarnar væru með ISDN-hraða eða jafngildi þess.

Þetta hafði mjög mikil stefnumótandi áhrif og hefur leitt til þess að símafyrirtækin hafa keppst meira um að bjóða enn frekari þjónustu og litlu símafyrirtækin og internetfyrirtækin hafa lagt sig fram um að koma inn á þennan markað. Ég tel að það sé af hinu góða. Þannig að afskipti stjórnvalda að þessu leyti eru á hinum almennu forsendum með þessum lagaramma og það hefur leitt til hraðari uppbyggingar háhraðakerfanna en annars hefði verið að mínu mati.

Ég tel að þetta hafi verið á nokkuð góðu róli þó að ég telji engu að síður og ég hef lýst því margsinnis yfir að símafyrirtækin þurfi að gera betur. Við eigum að setja okkur að þessu leyti alls staðar í fremstu röð og við eigum að nýta okkur upplýsingatæknina algerlega út í ystu æsar en til þess þurfa fjarskiptafyrirtækin að fjárfesta. Það er ekki lengur svo að menn skipi hlutafélögum úti í bæ fyrir um slíka hluti úr ræðustól á Alþingi eða úr ráðuneytum. Það eru hinar almennu reglur, almennu leikreglur viðskiptalífsins, sem þarna verða að gilda. Því meiri sem samkeppni er, þeim mun meiri líkur eru á að uppbyggingin verði hraðari.

Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé miklu við þetta að bæta öðru en því að ég vil algerlega vísa því á bug sem kom fram hjá hv. 7. þm. Suðurk. að með þessari aðferðafræði sé verið að búa til eitthvert bitlingakerfi eða koma á ógagnsæju úthlutunarkerfi. Það er nú bara þannig að við gerum ráð fyrir að úthluta þessum leyfum fyrir þriðju kynslóð með útboði, þannig að þær leikreglur eru fullkomlega eðlilegar að mínu mati. Ég tel að við höfum það góða reynslu af aðferðafræði útboðanna að ekki þurfi að hafa þau stóru orð sem hér voru viðhöfð um þá aðferð.

Ég vil að lokum endurtaka það sem ég sagði hér fyrr að ég þakka hv. þingmönnum í samgöngunefnd fyrir ágæta vinnu við meðferð þessa máls og vænti þess að frumvarpið geti orðið að lögum sem allra fyrst þannig að hægt sé að snúa sér að því að móta þær framkvæmdalínur sem lögin gera ráð fyrir þegar þau hafa tekið gildi.