131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[16:31]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Þetta var nú ágætt í lokin hjá hæstv. ráðherra. Það er nefnilega þannig að það er ágætisreynsla af uppboðum og útboðum á Íslandi og menn gefast ekkert upp á því að nota þær aðferðir þó svo að stöku sinnum komi fyrir að einhverjir fótbrjóti sig í því að bjóða of mikið í einhver tiltekin verkefni.

En það er svo merkilegt að hér hafa menn hlaupið til — og út af hverju? Hér eru taldir upp 15 aðilar, 15 lönd í Evrópu þar sem fram hafi farið úthlutanir á þessum verðmætum, og í þremur löndum hafa menn lent í þessum vandræðum sem hér hefur verið lýst. Þess vegna virðast menn hlaupa frá því hér að ganga frá málum með almennum reglum og vilja vera með fegurðarsamkeppni, eins og þessa sem hæstv. ráðherra á svo að hafa alsjáandi auga yfir og enda með því að gefa mönnum undirskriftina þegar þar að kemur.