131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[16:34]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst að hæstv. samgönguráðherra verði að gefa okkur dálítið betri upplýsingar og nánari skýringar á því viðhorfi sínu sem hann lýsti hér, hæstv. ráðherrann, að hann teldi að símafyrirtækin væru tilbúin núna til þess að takast á við þetta verkefni. Ég veit ekki hvaða upplýsingum ráðherrann býr yfir en það væri fróðlegt að fá að heyra þær, þær hljóta að vera einhverjar aðrar en við höfum fengið sem störfuðum í samgöngunefndinni. Þetta eru a.m.k. allt önnur viðhorf en símafyrirtækin lýstu fyrir okkur og m.a. var nú lesið hér áðan upp úr umsögn símafyrirtækisins Og Vodafone. Ef ég man rétt komu fram hjá Símanum einnig efasemdir í svipaða veru. Mat ráðherrans hlýtur því að byggjast á einhverri vitneskju sem hann telur þess eðlis að eðlilegt sé að fara í þetta verk. Þau viðhorf eru þó greinilega önnur en viðhorf símafyrirtækjanna.

Ég vil líka vekja athygli á því, virðulegi forseti, að í greinargerð með frumvarpinu stendur á bls. 5 um þriðju kynslóð farsíma í EES-ríkjum, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir þá óvissu sem ríkir nú um markaði fyrir þriðju kynslóðina er vonast til þess að tilkoma þeirrar tækni muni skapa grunninn að þráðlausum breiðbandstengingum […] “

Neðar segir:

„Velgengni þriðju kynslóðarinnar er undir því komin hvernig markaðurinn sjálfur bregst við.“

Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um að þetta gangi ákaflega vel annars staðar og að mikið sé eftir þessu sótt. (Forseti hringir.) Viðvaranir hér á landi eru sérstakar frá fyrirtækjunum.