131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[16:40]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega ólíku saman að jafna (Gripið fram í.) vegna þess að við erum hér að setja löggjöf um aðferðafræði við þessa úthlutun og erum þar ekki undir þá sök seld að regluverk á hinu Evrópska efnahagssvæði skikki okkur til ákveðinnar aðferðar eins og hefur gerst hvað varðar uppbyggingu raforkufyrirtækjanna. Þetta er gjörólíkt. Við ráðum hér algjörlega för sjálf en það á ekki við í hinu tilfellinu.

Ég held að við þurfum ekki á þessu frestunarákvæði að halda vegna þess líka að þó að ramminn sé settur, lögin skilgreind um hvernig við ætlum að úthluta þessu, er ekki þar með sagt að við þurfum að rjúka til þess strax að auglýsa þessi leyfi. Við þurfum að sjálfsögðu að velja rétta tímann. Byr verður að ráða þar (Forseti hringir.) eins og ég veit að hv. þingmaður skilur og skynjar að er góð viðmiðun.