131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Kosningar til Alþingis.

26. mál
[17:06]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér er um mikilsvert mál að ræða sem Frjálslyndi flokkurinn leggur ríka áherslu á enda varðar þetta mál lýðræðið og eitt af hlutverkum Frjálslynda flokksins í íslenskum stjórnmálum er einmitt að leggja aukna áherslu á lýðræðisleg gildi og lýðræðislegri en nú tíðkast. Það er ekki vanþörf á og ég mun koma inn á það í ræðu minni.

En það er einmitt eitt af grundvallaratriðum lýðræðisins að þegnarnir búi við jafnan rétt hvað varðar atkvæði og auðvitað á að vera einn maður á bak við hvert atkvæði og hafa jafnt gildi. En nú er ástandið þannig að búið er að skipta landinu upp í sex kjördæmi, þ.e. þrjú mjög stór landsbyggðarkjördæmi og þrjú höfuðborgarkjördæmi. Sú skipting er í rauninni eitthvað sem verður ekki búið við til framtíðar og sérstaklega ef horft er til höfuðborgarkjördæmanna. Skiptingin á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega hvað varðar Reykjavíkurkjördæmi norður og Reykjavíkurkjördæmi suður, er afkáraleg og þetta er ekki eitthvað sem verður búið við til framtíðar. Því á ég ekki von á öðru en að stjórnarskrárnefndin, sem hefur nýtekið til starfa, muni einmitt gaumgæfa þetta atriði og fara yfir hvort ekki sé rétt einmitt í þessari atrennu að landið verði eitt kjördæmi.

Stundum hafa heyrst ákveðnar gagnrýnisraddir í þá veru að ef landið yrði eitt kjördæmi mundu þröngar flokksklíkur nánast ráða uppstillingu á framboðslistum. En hægt er að komast hjá því annars vegar með því að lögfesta prófkjör flokkanna og ég tel að það eigi að gera og huga að því. Fyrir síðustu alþingiskosningar kom í ljós að það var lausung m.a. hjá einum stærsta stjórnmálaflokki landsins, Sjálfstæðisflokknum, það var í Norðvesturkjördæmi, kjördæminu sem ég er þingmaður fyrir, þar var flakk á kjörseðlum og alls kyns kærumál uppi. Það er full þörf á að treysta grundvöll prófkjöra ef það á yfir höfuð að taka eitthvert mark á þeim. Hins vegar er sú leið sem Frjálslyndi flokkurinn hefur bent á, að fólk geti valið frambjóðendur í kosningunum sjálfum þannig að hægt væri að kjósa frambjóðendur á listunum með beinum hætti. Það er ein leiðin til þess að tryggja að hver og einn kjósandi geti haft áhrif á hverjir veljast til setu á löggjafarsamkomunni.

Hvað lýðræðið varðar þá er mjög þarft að skoða hvernig haldið er á málum á fleiri sviðum. Sérstaklega vil ég nefna og er það aldrei of oft nefnt á meðan það óþolandi ástand ríkir að stærstu stjórnmálaflokkar landsins leyni því hverjir greiði í flokkssjóði þeirra. Það er einn þátturinn sem fara þarf rækilega yfir til þess að tryggja lýðræðið. Það er mjög þarft mál. Það kom upp nú í olíuhneykslinu, og það ber að rifja það upp hér, að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft bein fjárframlög frá þeim fyrirtækjum sem höfðu fé af almenningi með ólöglegu samráði. Það er mjög alvarlegt að lýðræðislega kjörnir fulltrúar séu jafnvel kosnir hér með fjárframlögum frá félögum sem hafa haft fé af almenningi. Það er mjög alvarlegt og auðvitað ættu ábyrgir stjórnmálamenn í þessum flokkum, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, ef þeir finnast þar, að koma og ræða þetta hér. Þetta er alveg óþolandi ástand.

Svo hafa menn einnig nefnt að núverandi skipan sé góð fyrir landsbyggðina en því miður hefur það ekki reynst svo. Þetta meira vægi atkvæða á landsbyggðinni hefur ekki reynst landsbyggðinni vel. Í umræðu á þinginu um byggðamál var áberandi að það var nánast einungis minni hluti þingmanna sem tók þátt. Sá minni hluti sem kemur frá hinum dreifðu byggðum.

Í miklum og fjörugum umræðum um skýrslu byggðamálaráðherra um framvindu í byggðamálum tók , ef ég man rétt, einungis einn þingmaður af Reykjavíkursvæðinu þátt í umræðu um það alvarlega ástand sem er á landsbyggðinni, þ.e. byggðaflóttinn. Það er nú einu sinni svo að umræðan um byggðamál og landsbyggðina er orðin umræða minni hluta þingmanna á hinu háa Alþingi. Í rauninni ætti þetta þjóðfélagsmál og þessi fólksflótti sem hefur því miður orðið einnig að vera mál þingmanna á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að þetta ójafnvægi í byggðamálum hefur skapað vissa þenslu á höfuðborgarsvæðinu sem er óæskileg.

Að lokum er rétt að taka fram að Frjálslyndi flokkurinn leggur mikla áherslu á að ræða um lýðræðið og að koma á bættum lýðræðislegum stjórnarháttum og er ekki vanþörf á. Það kemur m.a. fram í fjármálum stjórnmálaflokka og þessu máli, að gera landið að einu kjördæmi. Ég tel að þetta mál, Ísland eitt kjördæmi, sé í rauninni framtíðarmál og það sé einungis spurning hvenær landið verður eitt kjördæmi en ekki hvort.