131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Kosningar til Alþingis.

26. mál
[17:13]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum fyrir það mál sem þeir hafa lagt hér fram og það að reyna með þessum hætti að stuðla að jöfnun atkvæðisréttar og því að gera landið að einu kjördæmi, sannarlega hið þarfasta mál sem út af fyrir sig hefur svo sem birst í þinginu í öðrum myndum einnig og á sér eflaust stuðningsmenn og talsmenn í öllum stjórnmálaflokkum, enda í sjálfu sér ekki annað en viðhorf um heilbrigða skynsemi sem löngu er orðið aðkallandi að nái fram að ganga. Ég tel það vera yfirsjón að í skipunarbréfi hinnar nýju stjórnarskrárnefndar skuli þetta atriði ekki vera sérstakt áhersluatriði um endurskoðun á stjórnarskránni því að hér má ekki lengur við svo búið standa.

Um þau sjálfsögðu mannréttindi að fá að greiða atkvæði og hafa fullan atkvæðisrétt í alþingiskosningum hafa menn auðvitað þurft að berjast í gegnum tíðina. Í ár eru 90 ár síðan konur á Íslandi fengu kosningarrétt, árið 1915. Við öryrkjar eða þurfalingar á fyrri tíð fengum kosningarrétt fyrir tilstilli Héðins Valdimarssonar og framgöngu hans hér í þinginu árið 1934. En nú í dag er árið 2005 og enn hafa Reykvíkingar ekki fengið fullan atkvæðisrétt í landinu.

Það er algerlega óþolandi að við á höfuðborgarsvæðinu þurfum við það að búa að vera með einhverjum hætti minni þátttakendur í alþingiskosningum en ýmsir aðrir landsmenn. Við heyrum það auðvitað í umræðunum hér og heyrðum í umræðunum um þetta mál áður, að þeim sem fengið hafa hinn meiri atkvæðisrétt þykir það alveg jafnóeðlilegt eins og okkur hér á svæðinu að málum sé þannig skipað. Ég hygg að það að jafna atkvæðisréttinn sé orðið yfirgnæfandi sjónarmið með þjóðinni og raunar líka hitt, að leggja af þetta ónýta kjördæmakerfi sem var tekið upp sem einhvers konar bráðabirgðalausn fyrir nokkru síðan þegar engin leið var að ná málamiðlun annarri en þessari og öllum sem að henni komu fannst sú málamiðlun vond. Verst þótti okkur hún sennilega í Reykjavík þar sem borgin, eitt sveitarfélag, var skorið í tvennt þannig að til athlægis var, ekki bara um borgina heldur um landið allt. Svo fjarskalega vitlaust var fyrirkomulagið, þar sem fólkið við Hringbrautina er í sitt hvoru kjördæminu, að jafnvel útlærðir lögfræðingar Reykjavíkurborgar og sérfræðingar borgarinnar í því að halda almennar kosningar um áratuga skeið gerðu þau mistök að setja hluta af íbúum Framnesvegar í vitlaust kjördæmi, og er það nema von vegna þess að íbúarnir við þessa götu eru ekki í sama kjördæmi af því að kjördæmamörkin liggja um miðja götuna og þeir sem eru á lágu númerunum eru í öðru kjördæminu og þeir sem eru á háu númerunum í hinu. Jafnvel menn sem um áratuga skeið hafa unnið að skipulagningu kosninga til Alþingis og borgarstjórnar og forsetakosningum með þeim vandaða og góða hætti sem við öll þekkjum var um megn að framfylgja þeim ákvæðum sem hér voru sett.

Þetta kjördæmakerfi er líka að sínu leyti, þó kjördæmin séu stærri, skjól fyrir ýmis annarleg sjónarmið og óeðlilega hagsmunagæslu fyrir einstök svæði eins og hin fyrri kjördæmakerfi voru þó að þetta sé kannski skárra að því leytinu til að kjördæmin eru stærri en áður. En það er líka gríðarlegur ókostur og við þekkjum það auðvitað frá félögum okkar sem eru að reyna að þjóna kjördæmum sem ná alla leiðina frá Höfn í Hornafirði til Reykjanesbæjar að það er ákaflega erfitt að gera það svo að vel sé og langtum skynsamlegra og betra að við séum hér á Alþingi þingmenn þjóðarinnar en ekki einstakra sveitarfélaga eða landshluta og tímabært að taka þessa skipan upp.

Ég held líka að sú hugmynd sem fram er sett um persónukjör samhliða listakjöri í almennum kosningum sé æskileg. Það er engum blöðum um það að fletta að það eru ekki aðeins flokkslínurnar sem máli skipta í stjórnmálum. Það er einfaldlega þannig að við treystum einstaklingum til góðra verka og við þekkjum góða, trausta og öfluga einstaklinga í öllum stjórnmálaflokkum og við viljum gjarnan hafa áhrif á það hvaða einstaklingar fara fyrir þjóðinni og sjálfsagt og eðlilegt að við getum með einhverjum hætti haft áhrif á það í almennum kosningum.

Ég vil, virðulegi forseti, fyrst og síðast fá að leggja enn og aftur áherslu á það að við það er ekki búandi að árið 2005 hafi Reykvíkingar ekki enn fengið fullan kosningarrétt í landinu. Það er brýn nauðsyn að við endurskoðun á stjórnarskránni verði kjördæmaskipunin og kosningakerfið endurskoðað með þeim hætti að við njótum þeirra grundvallarmannréttinda eins og aðrir landsmenn að vera fullgildir þátttakendur í alþingiskosningum.