131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

32. mál
[17:39]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 90/2003. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Frjálslynda flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, Sigurjón Þórðarson og Gunnar Örlygsson.

Frumvarp þetta er aðeins ein grein og síðan gildistökuákvæðisgreinin. Það er hins vegar rétt að vekja athygli á því að gildistökuákvæðisgreinin var miðuð við það að frumvarpið var lagt fram í upphafi haustþings og þar af leiðandi settum við inn að lögin gætu hugsanlega öðlast gildi 1. janúar 2005, sem nú er þegar liðinn, með það að markmiði að þau kæmu til framkvæmda við álagningu á árinu 2006. Þetta stenst auðvitað ekki lengur miðað við tímans tal, núna komið inn í þorra á árinu 2005. Þannig leiðir af sjálfu að þessar dagsetningar verða að breytast og þarf ekki að útskýra það nánar, þær verða örugglega að færast til um eitt ár ef svo skyldi fara að þetta mál kæmi aftur inn til þings til frekari umræðu og væntanlegrar afgreiðslu.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, 2. tölul., sem orðast svo: Útgjöld vegna sannanlegs ferðakostnaðar til og frá vinnu sem er umfram 120.000 kr. á ári en þó aldrei hærri en 400.000 kr. á ári og er í samræmi við matsreglur fjármálaráðherra.“

Síðan er gildistökuákvæðið.

Hér er verið að leggja til ákveðna heimild til að þeir sem leggja út mikinn kostnað vegna atvinnusóknar sinnar, kostnað sem er umfram 10.000 kr. á mánuði að meðaltali, þ.e. um 120.000 kr. á ári, geti átt rétt á því og eigi rétt á því að fá að draga þann kostnað sem umfram er 120.000 kr., þó að hámarki 400.000 kr., frá tekjum áður en kemur til skattlagningar og þar af leiðandi að lækka tekjur sínar fyrir endanlegan útreikning á greiðslustöðu viðkomandi árs.

Við framkvæmd ákvæðisins er gert ráð fyrir að sambærilegar reglur gildi um sönnun á útlögðum kostnaði eins og gilda um sönnun á kostnaði á móti ökutækjastyrk. Við þekkjum það ágætlega í hv. Alþingi að við verðum auðvitað að færa sönnur á það að við notum ökutækið okkar í störfum okkar og halda utan um þann kostnað, bæði með færslu akstursbókar og síðan kostnað við ökutækið sjálft, bensín- eða olíunotkun o.s.frv.

Hér er hins vegar ekki lagt til að þetta tengist eingöngu ferðamáta í eigin ökutæki, heldur er þetta almenn grein sem nær til allra ferðamáta, hvort sem menn nota eigin bifreið, hópferðabíla, ferjur eða flugvélar til að ferðast til og frá atvinnu sinni. Ef þeir á annað borð geta fært fyrir því sönnur að tilgangur ferðarinnar sé að komast á vinnustað og afla tekna megi þeir sem þannig sanna kostnað sem tengist störfum þeirra draga kostnaðinn frá tekjum sínum áður en kemur til skattlagningar, þó að hámarki 400.000 kr.

Við teljum að hér sé um sanngirnismál að ræða, þessi kostnaður sé sannaður og sé til staðar við öflun atvinnuteknanna. Eins og frumvarpið er fram sett er meginmarkmiðið einkum að koma til móts við þá sem þurfa að sækja vinnu m.a. um langan veg og bera af því mikinn kostnað þó að það sé í raun og veru ekki skilyrði, heldur er skilyrðið eingöngu að menn sanni það að kostnaðurinn verði til. Við setjum hvorki mælistiku á kílómetravegalengd eða fargjaldakostnað, heldur verður að leggja þau sönnunargögn fram til að eiga rétt á því frádragi sem hér er lagt til.

Við höfum í löggjöf okkar gert mönnum kleift mjög auðveldlega að stofna til svokallaðra einkahlutafélaga. Ef menn stofna til einkahlutafélaga leiðir af sjálfu að kostnaður er dreginn frá við þá starfsemi. Þeir sem ferðast á vegum einkahlutafélags þó að einkahlutafélagið sé í raun og veru sami maður og sinnir vinnunni og á hlutafélagið fær hann að draga ferðakostnað sinn frá við öflun tekna og nýta sér það við álagningu. Að vísu er sérstök reikniregla sem mönnum er ætlað að sýna fram á að þeir afli ekki minni tekna heldur en ákveðið viðmið sem mönnum eru sett fyrir ákveðnar atvinnugreinar og sjálfsagt yrði að taka tillit til þess varðandi menn sem vinna í einkahlutafélagi. En eigi að síður er það svo að með því að stofna einkahlutafélag geta menn notað ferðakostnað og annan kostnað sem til fellur sem verður frádrag við atvinnustarfsemina.

Við teljum að margt geti unnist við að heimila það sem hér er lagt til. Við teljum að þetta frumvarp samrýmist stefnu sem haldið hefur verið fram í byggðamálum sem felst í því að stækka sveitarfélög og stækka atvinnusvæði og gera fólki kleift, m.a. á landsbyggðinni, að ferðast á milli staða til að stunda vinnu sína. Það er auðvitað þekkt að mikill ferðakostnaður getur hamlað þeirri þróun að menn sæki vinnu á milli staða og ferðir á milli staða eða á vinnustað draga úr samkeppnishæfni byggðarlaga um vinnuafl. Þessi framsetning ætti að geta mætt því að hluta til.

Síðan má vekja athygli á því að mikill ferðakostnaður getur auðvitað verið vinnuletjandi með þeim afleiðingum að menn sjá t.d. hag sínum betur borgið með því að þiggja atvinnuleysisbætur frekar en að sækja vinnu í næsta byggðarlag. Það er vissulega staða sem menn geta hæglega staðið frammi fyrir því stundum þarf að hafa fyrir því að sækja atvinnu í næsta byggðarlag. Við sem flytjum þetta mál teljum að hér sé mál á ferðinni sem er ætlað að mæta kostnaði sem fólk leggur á sig við að sækja atvinnu. Það getur m.a. orðið til þess að fólk sjái ekki þörf á að bregða búi í byggðarlagi þar sem veruleg breyting verður á atvinnuháttum. Eigum við að taka eitthvert dæmi sem e.t.v. verður í nánustu framtíð? Eigum við að taka Stöðvarfjörð þar sem verið er að tala um að leggja niður fiskvinnslu á næsta sumri? Fyrirtæki sem þar rekur fiskvinnslu gerir ráð fyrir að sú atvinna verði lögð þar niður samhliða því að jarðgöng opnast milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar og þar af leiðandi gætu íbúarnir ef til vill sótt þangað í atvinnu. Það er allnokkurt ferðalag og ferðakostnaður og það væri auðvitað æskilegt ef svona breyting gengur eftir í Stöðvarfirði að það verði ekki til byggðabrests.

Þannig mætti taka fjöldamörg dæmi úr sögu undanfarinna ára um hinar ýmsu byggðir sem hafa lent í tímabundnum erfiðleikum vegna samdráttar í atvinnu og má t.d. minna á Blönduós þar sem rækjuvinnslunni var lokað nýlega.

Við teljum sem sagt að hér sé verið að opna á heimild sem geti að mörgu leyti verið eðlileg. Hún á ekki að mismuna fólki að því leyti til að sönnunarbyrðin er hjá fólkinu, skiptir ekki máli hvort fólk býr á Reykjavíkursvæðinu, Blönduósi eða Stöðvarfirði. Kostnaðinn þarf að sýna og sanna með framlögðum gögnum til að menn eigi rétt á þessu hvar sem þeir búa á landinu. Við gerum heldur ekki tillögu um mismunandi ferðamáta heldur sé jafnt á komið hvaða ferðamáta menn nota til að komast til og frá vinnu sinni.

Við höldum einnig að þetta geti undir vissum kringumstæðum dregið úr sókn í atvinnuleysisbætur og geri það að verkum að fólk þurfi ekki að bregða búi í byggðum sínum þótt atvinnuháttabreytingar verði og þannig sé margt sem vinnist við þessa framsetningu á umræddri hugmynd.

Ég vil einnig vekja athygli á því að svona fyrirkomulag er þekkt í löndunum í kringum okkur, m.a. í Noregi, þar sem menn fá skattaívilnun ef þeir sækja vinnu um langan veg og bera kostnað af ferðalögum því samfara. En af sjálfu leiðir að menn verða auðvitað að sýna fram á þann kostnað. Það hefur vissulega tíðkast hjá stærri fyrirtækjum að þau flytja sjálf fólk sitt á vinnustaðina, samanber fyrirtæki eins og Norðurál í Hvalfirði sem hefur verið að flytja starfsmenn frá Reykjavíkursvæðinu til þess vinnustaðar og sama kann að koma upp í því dæmi sem ég nefndi varðandi álver í Reyðarfirði, að fyrirtækið sjálft sjái um flutningana en svo framarlega sem enginn kostnaður hlýst af því fyrir launþegann skapar það auðvitað ekki rétt að þessu leyti.

Einnig er rétt að vekja athygli á því að menn þurfa að leggja í allnokkurn kostnað til að eiga rétt á þessu frádragi. Kostnaður undir 120 þúsundum, þó sannarlegur sé, veitir ekki frádrag en það er hins vegar verið að mæta því þegar menn fara að hafa verulegan kostnað af ferðalögum til að stunda atvinnu sína. Við teljum þetta ákveðið réttlætissjónarmið og þau rök sem ég hef fært fyrir þessu máli held ég að mæli með því að það verði tekið til góðrar umfjöllunar og samþykktar í hv. Alþingi.

Ég held að finna megi fleiri rök og fleiri dæmi frá nágrannalöndum okkar um að slíkt fyrirkomulag sé til staðar eins og ég hef nefnt um Noreg. Þar að auki bendi ég enn og aftur á þann möguleika sem opinn er í skattalögum og er orðinn tiltölulega einfaldur að stofna einkahlutafélag um starfsemi sína. Það gætu menn svo sem gert og tekið að sér ákveðin verk á ákveðnum vinnustað, þess vegna verið þrír eða fjórir í hópi og stofnað einkahlutafélag og tekið launin þar út og þá væri kostnaðurinn frádráttarbær.

Ég held að þetta mál eigi margar réttlætishliðar og eðlilegt að það sé skoðað. Það á líka örugglega þær hliðar að geta stuðlað að stöðugleika í byggðum þar sem tímabundinn atvinnubrestur verður eða um lengri tíma og þær eiga örugglega þau rök með sér að það auðveldar fólki að sækja vinnu þó að um lengri veg væri, vinnu sem fólk kannski sækist eftir en setur fyrir sig vegna vegalengda eða kostnaðar. Öll þessi rök held ég að mæli með þessari útfærslu og legg því til að málið verði samþykkt.