131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

32. mál
[18:01]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það frumvarp sem flutt er af hv. þingmönnum Frjálslynda flokksins um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem heitir sennilega núna bara lög um tekjuskatt, er flutt öðru sinni, það var líka flutt á síðasta þingi. Efni frumvarpsins er að útgjöld vegna sannanlegs ferðakostnaðar til og frá vinnu sem er umfram 120 þús. kr. á ári en þó aldrei hærri en 400 þús. kr. á ári geti verið undanþegin frá skatti.

Ég er sammála megintilgangi frumvarpsins, að koma til móts við þá aðila sem þurfa að sækja vinnu um langan veg. Við þekkjum það að um allt land eru atvinnuhættir að breytast og fólk sækir vinnu æ lengra til og frá heimili sínu. Við þekkjum það inn til sveita, inn til dala og út til stranda að búskapur hefur dregist saman eða breytt um eðli og vinna er sótt til næsta þéttbýlis eða lengra. Reglur sem þessar sem verið er að mæla með geta stuðlað að því að landið verði lengur í byggð í heild sinni, hægt sé að nýta fjölþætt gæði landsins sem hlutastörf og búa þar en sækja atvinnu annað og skiptir þá ekki máli hvar búsetan eða atvinnan er.

Hv. þingmaður minntist á að nú þegar eru möguleikar hjá fólki til þess að taka þetta sem hluta af rekstrarkostnaði við starf sitt með beinum hætti, ferðakostnað við stofnun og rekstur einkahlutafélaga eða hlutafélaga þar sem vinna er unnin með þeim hætti að aka þarf langan veg til hennar. Hægt er að reikna þetta sem hluta af starfskostnaði og verður þá frádráttarbært til skatts eftir settum reglum.

Nú þegar eru víða í gildi reglur hjá mörgum atvinnufyrirtækjum að greiða ferðir til og frá vinnu eftir ákveðnum reglum sem settar eru á hálfs mánaðar fresti eða mánaðarfresti. Þeim reglum er því víða beitt með ýmsum hætti og væri ástæða til að horfa til frekari samkeppni hvað þetta mál varðar.

Það er líka staðreynd að almenningssamgöngur hafa skroppið saman og þróun þeirra hefur verið með þeim hætti að það hefur ekki stuðlað að því að fólk geti nýtt þær til þess að stunda vinnu frá heimili sínu um lengri veg. Það eru því enn ein rökin fyrir því að þetta sé skoðað með þeim hætti sem flutningsmenn tillögunnar leggja til.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal minntist á fleiri atriði sem mætti huga að í þessu sambandi, t.d. að leikskólagjöldin væru verulega mismunandi í möguleikum fólks til að sækja vinnu. Ég er hv. þingmanni hjartanlega sammála, enda höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flutt tillögu um að stefnt verði að því í áföngum að leikskólar verði gjaldfrjálsir fyrir fólk sem sendir börn sín þangað enda eru leikskólarnir hluti af hinu almenna menntakerfi þjóðarinnar. Leikskólakennarar eru hluti af kennurum í grunnnámi í skólakerfinu og því eðlilegt að leikskólarnir verði flokkaðir sem slíkir og að því verði stefnt í áföngum að tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga verði hagað þannig að sveitarfélögin geti boðið gjaldfrjálsan leikskóla. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að það væri ein stærsta kjarabótin sem hægt væri að bjóða gagnvart barnafólki til að draga úr þeirri mismunun sem er í frammi með þeim leikskólagjöldum sem nú eru.

Ábendingar hv. þm. Péturs H. Blöndals varðandi mikilvægi leikskólanna og leikskólakostnaðar voru mjög athyglisverðar og vil ég draga fram tillöguflutning Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að leikskólar verði gjaldfrjálsir fyrir þá sem sækja þangað. Það var gott innlegg hjá hv. þingmanni í umræðuna, þó það kæmi úr sérkennilegri átt, þeirri átt sem hefur meira höfðað til einkavæðingar og hver ætti að bjarga sér sem betur gæti og sá ætti að fá mest sem gæti hlaupið hraðast. En þetta var gleðilegt innlegg hjá hv. þingmanni í umræðuna að gjaldtöku fyrir leikskóla yrði breytt þannig að hann mismunaði ekki fólki eins og leikskólinn gerir nú og tillaga okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hljóðar einmitt upp á að þeir verði gjaldfrjálsir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Ég tek undir þau sjónarmið sem eru að baki tillögu hv. þingmanna Frjálslynda flokksins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur mælt fyrir og tel þetta vera byggðamál, réttlætismál og mál sem nauðsynlegt sé að skoða hvernig koma megi í framkvæmd.