131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

32. mál
[18:08]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er með ólíkindum að hv. þingmaður skuli hafa misskilið orð mín svona. Ég var ekki að leggja til að leikskólagjöld yrðu frádráttarbær frá skatti, alls ekki. Ég sagði að það væri mjög mikilvægt að halda skattkerfum einföldum og skilvirkum þannig að allir mættu skilja vegna þess að þegar þau eiga að taka tillit til alls konar félagslegra þátta yrðu þau svo flókin að þeir sem ættu að njóta þeirra nytu þeirra ekki af því að þeir hefðu ekki þekkingu á þeim. Ég sagðist vera á móti þeirri tillögu sem við ræðum þó hún væri sanngjörn vegna þess að hún flækir kerfið og leikskólakostnaðurinn mundi flækja kerfið líka, þá mundum við bjóða upp á enn meira, við mundum taka enn fleiri þætti inn í því það má endalaust bæta við.

Ég vil nefna, eins og ég hef áður nefnt, að í þýska skattkerfinu geta menn dregið frá skatti notkun á batteríum í heyrnartæki að því leyti sem þeir nota þau í vinnunni. Hvað halda hv. þingmenn að margir þýskir launþegar viti af þessu ákvæði sem skiptir engu máli? Enginn, nema þeir sem hafa dýra endurskoðendur og þeir nota sér það örugglega allir. En hinn almenni borgari notar þetta ekki, herra forseti.

Það er einmitt þannig sem þetta virkar. Þegar við gerum kerfin svona flókin nýtast þau ekki þeim sem þyrftu virkilega á því að halda og þessi tillaga gerir það líka. Þeir verkamenn og aðrir sem ekki þekkja skattalögin munu ekki nota þessa reglu. Hinir munu nota hana í botn.