131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

32. mál
[18:10]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég harma ef hv. þingmaður er að ganga til baka í þessum annars ágæta málflutningi sem hann vissulega var. En eins og ég heyrði hv. þingmann tala áðan nefndi hann að leikskólagjöld væru kannski hvað mest íþyngjandi hjá fólki sem sendir börn sín í leikskóla.

Það er alveg hárrétt að komið hafa fram tillögur og hugmyndir um að leikskólagjöld verði frádráttarbær til skatts. Ég man ekki hvort það voru þingmenn úr flokki hv. þm. Péturs H. Blöndal en að mig minnir hafa þingmenn frá stjórnarliðinu borið fram þær hugmyndir. Það er svo sem sjónarmið út af fyrir sig en tillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lýtur að því að leikskólar séu hluti af hinu almenna þjónustukerfi landsmanna, hluti af hinu almenna skólakerfi enda eru leikskólakennarar í Kennarafélagi Íslands og hluti af menntunarstétt landsins, sem eðlilegt er. Þess vegna væri í hæsta máta eðlilegt að tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga væri háttað með þeim hætti að sveitarfélögin gætu boðið gjaldfrjálsan leikskóla. Þetta vildi ég að kæmi fram.

Varðandi einföldun á skattkerfinu er ég alveg sammála hv. þingmanni að skattkerfið á að vera einfalt. Grunnþjónustan á að vera skilgreind og ná rækilega til þess fólks sem eðlilegt er að hún nái til, eins og t.d. leikskólarnir. En tillagan sem hv. þingmenn Frjálslynda flokksins flytja um ákveðinn kostnað við að koma sér til og frá vinnu finnst mér vera allra góðra gjalda verð og fyllilega rétt að hún sé skoðuð.