131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Tilkynningar.

[13:32]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna þess að mér finnst það ekki ganga til framtíðar að ekki sé sinnt því að svara fyrirspurnum betur en gert er. Ég á fyrirspurn á dagskránni sem var dreift 12. október á síðasta ári. Samkvæmt þingsköpum er gert ráð fyrir því að fyrirspurnum sé svarað innan átta virkra daga. Ef ég hef reiknað rétt eru liðnir 106 dagar og fyrirspurnir missa auðvitað gildi sitt á styttri tíma en þessum, enda varð þessi fyrirspurn kannski til vegna þess fjárlagafrumvarps sem þá var komið fram og búið var að dreifa í þinginu og þess sem í því stóð um tiltekna stofnun.

Þetta er ófært og ég tel að forsetar þingsins þurfi að taka á þessu. Það hlýtur að vera einfalt mál að hafa fundi til að svara fyrirspurnum. Þingmenn verða þá að sæta því að vera hér á einhverjum öðrum tímum til viðbótar við þá sem gert er ráð fyrir í starfsáætlun þingsins. Mér finnst ómögulegt að sætta mig við að svo lengi sé beðið eftir því að fá svör við þeim fyrirspurnum sem eru lagðar fram.