131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

171. mál
[13:38]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er að nálgast hér það brýna réttlætismál sem gjaldfrjáls leikskóli er út frá sjónarhóli félagsmálaráðuneytisins sem hefur sveitarstjórnarmál á sinni könnu. Það sem ég kalla eftir er pólitísk afstaða hæstv. félagsmálaráðherra til gjaldfrjáls leikskóla, hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að tekjustofnar og fjármagn sé flutt til sveitarfélaga til að þau geti tryggt gjaldfrjálsa leikskóla.

Ég veit fullvel að samskipti ríkis og sveitarfélaga eru til skoðunar í nokkrum nefndum en eftir því sem ég best veit hefur umræðan þar ekki snúist um hvort ríkið ætti að flytja fjármagn til sveitarfélaga til þessa sérstaka verkefnis.

Nú eru nokkur sveitarfélög farin að huga að gjaldfrjálsum leikskóla í áföngum og má þar nefna Reykjavíkurborg. Það er hins vegar ljóst að eigi gjaldfrjáls leikskóli að verða að veruleika þarf ríkið að koma að. Það er því sérstök pólitísk aðgerð og ákvörðun að tryggja sveitarfélögum fjármagn til að ráðast í þetta verkefni. Ef hæstv. félagsmálaráðherra deilir sömu skoðun og ég um að leikskóli eigi að vera gjaldfrjáls hlýtur hann að vera tilbúinn að beita sér fyrir því á þeim vettvangi sem er til staðar.

Skólagjöld leikskólabarna sem foreldrar greiða núna eru um 2,4 milljarðar kr. Ef leikskólinn yrði gerður gjaldfrjáls yrði kostnaðurinn hærri, m.a. vegna þess að þá þyrfti að tryggja öllum börnum pláss. Sé hins vegar litið til tveggja ára barna eða eldri eru 90% þeirra nú þegar með leikskólapláss. Til samanburðar við þessa tölu má minnast á að skattapakki ríkisstjórnarinnar mun kosta samanlagt á næstu þremur árum 40 milljarða kr.

Gjaldfrjáls leikskóli er kostnaðarsöm aðgerð en hins vegar mikið réttlætismál. Með þeim 20 þús. börnum sem eru núna í leikskólum landsins eru borguð himinhá skólagjöld. Skólagjöld fyrir eitt barn geta numið nokkur hundruð þúsundum króna á hverju ári. Einn mánuður í leikskóla kostar litlu minna en eitt ár í Háskóla Íslands.

Gjaldfrjáls leikskóli væri sömuleiðis mikið jafnréttismál en sá málaflokkur heyrir einnig undir hæstv. félagsmálaráðherra. Vegna kynbundins launamunar getur sú staða komið upp að konan neyðist af fjárhagsástæðum til að yfirgefa vinnumarkaðinn gegn vilja sínum séu börnin t.d. fleiri en eitt á leikskólaaldri. Ég beini því þeirri fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra hvort það komi til greina að flytja tekjustofna og fjármagn til sveitarfélaga til að hægt sé að tryggja gjaldfrjálsan leikskóla og hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir slíku.