131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

171. mál
[13:41]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur beint til mín fyrirspurn um það hvort til greina komi að flytja tekjustofna og fjármagn til sveitarfélaganna til að hægt sé að tryggja gjaldfrjálsan leikskóla.

Ég vil, hæstv. forseti, byrja á því að biðjast velvirðingar á því hversu lengi hefur dregist að svara fyrirspyrjanda, líka í framhaldi af þeirri umræðu sem varð hér áðan. Að hluta til er ástæðan sú að ekki liggur beint við að málið heyri undir verksvið félagsmálaráðherra. Í raun snertir fyrirspurnin stefnu í menntamálum og ætti því kannski fremur að vera beint til hæstv. menntamálaráðherra. Hins vegar hefur komið fram að slík fyrirspurn hefur þegar verið lögð fyrir hæstv. menntamálaráðherra og því eðlilegt að ég svari því sem hér er fyrir mig lagt.

Hv. þingmaður spyr mig um skoðun mína. Ég er þeirrar skoðunar að áður en þeirri spurningu er svarað sem hér er til mín beint þurfi að svara spurningunni um það hvort stefna beri að því að leikskólinn verði að hluta til eða öllu leyti hluti af skyldunámi. Ljóst er að samhliða þyrfti þá að kanna með hvaða hætti ætti að standa straum af slíkri breytingu, hvort það yrði ríkissjóður eða sveitarfélögin eða þessir aðilar í sameiningu.

Fyrstu spurningunni hefur einfaldlega ekki verið svarað og því er tæpast tímabært að svara spurningu um flutning tekjustofna vegna breytinga sem ekki er farið að ræða, hvorki innan ríkisstjórnar né á sveitarstjórnarstiginu eins og raunar kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda. Hitt er annað mál að það er stefna míns flokks, Framsóknarflokksins, að auka gildi leikskólans í menntakerfinu. Þannig ályktaði flokksþing Framsóknarflokksins árið 2003 um það að í samvinnu við sveitarfélögin yrði komið á skólaskyldu á síðasta ári leikskólans og jafnframt stefnt að afnámi leikskólagjalda um leið og skólaskyldu yrði komið á. Flokksþingið ályktaði enn fremur að leitast yrði við að auka samstarf leikskóla og grunnskóla, m.a. til að auðvelda börnum fyrstu skrefin innan grunnskólans.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé eitt af fjölmörgum málum sem menn hljóta að hyggja að í tengslum við þá vinnu sem forsætisráðherra hefur nú boðað að sett verði af stað til að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar í þjóðfélaginu. Mér er kunnugt um að sú vinna er að fara af stað, m.a. með atbeina félagsmálaráðuneytisins, og það verður áhugavert að fylgjast með þeirri umfjöllun sem þar mun eiga sér stað.