131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

171. mál
[13:43]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að bera fram þessa fyrirspurn. Hér er um að ræða kannski eitt stærsta hagsmunamál unga fólksins, að á þessum málum verði tekið og komið á gjaldfrjálsum leikskóla. Gjöld vegna leikskóla, sérstaklega ef um er að ræða fleiri en eitt barn, vega mjög þungt í framfærslu fjölskyldunnar.

Í þessu sambandi vil ég minna hæstv. félagsmálaráðherra á að í skýrslu um stöðu fátæks fólks á Íslandi skilaði ríkisstjórnin auðu um að nokkuð þyrfti að gera fyrir fátækt fólk. Hún lagði raunverulega fram eina tillögu og hún var sú að leikskólinn yrði gjaldfrjáls, vísaði því þar með auðvitað á sveitarfélögin. Nú mun reyna á það hvort ríkisstjórnin meinti eitthvað með þessu og hvort hún er þá tilbúin að flytja tekjustofna og fjármagn til sveitarfélaganna til þess að leikskólinn geti orðið gjaldfrjáls. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig ríkisstjórnin ætlar að efna einu bitastæðu tillöguna sem var flutt af hálfu ríkisstjórnarinnar um stöðu fátækra sem var gjaldfrjáls leikskóli.