131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

171. mál
[13:51]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég verð að byrja á að lýsa talsverðum vonbrigðum með svar hæstv. félagsmálaráðherra. Hér var spurt um pólitíska afstöðu hæstv. ráðherra en hún kom einfaldlega ekki fram með nægilega skýrum hætti. Ég held að þar sem samskipti ríkis og sveitarfélaga eru einmitt í umræðunni núna sé þetta tími til að ræða hvort það sé pólitískur vilji til að gera leikskólann, sem er fyrsta skólastigið, gjaldfrjálsan. Þess vegna þarf pólitísk afstaða hæstv. félagsmálaráðherra að liggja fyrir.

Framsóknarflokkurinn segist á hátíðardögum vera flokkur fjölskyldunnar og hæstv. forsætisráðherra fór nýverið mikinn og talaði um gildi stórfjölskyldunnar. Gjaldfrjáls leikskóli væri gríðarlega mikilvægt skref fyrir fjölskyldur landsins. Fjölskyldur leikskólabarna eru iðulega sá hópur sem hefur hvað þrengstu fjárráðin. Hér er oftast um að ræða unga foreldra sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið og hefja þátttöku á vinnumarkaði.

Nú er það nær almenn regla að börn fari í leikskóla enda er það orðinn eðlilegur hluti af skólagöngu hvers barns. Þessi háu skólagjöld eru því mikil tímaskekkja og ber að afnema. Samfylkingin telur að það eigi að vera hlutverk almannavaldsins að greiða kostnað við leikskóla alveg eins og það er almannavaldsins að greiða fyrir grunnskóla. En þá þyrfti ríkisvaldið að koma til móts við sveitarfélögin með tekjustofna fyrir slíkri aðgerð.

Ég vil því kalla aftur eftir pólitískri afstöðu hæstv. félagsmálaráðherra. Telur hann að leikskólinn allur eigi að vera gjaldfrjáls eða ekki og mun hann beita sér fyrir því? Ef ekki, væri fróðlegt að heyra röksemdir hæstv. félagsmálaráðherra um þann eðlismun sem hann sæi á þessum tveimur neðstu skólastigum þar sem annað þeirra er gjaldfrjálst en hitt býr við há skólagjöld.