131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

171. mál
[13:52]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir að hefja þessa umræðu, og þá gagnlegu umræðu sem hér hefur orðið. Það er lýst eftir pólitískri afstöðu minni sem félagsmálaráðherra. Ég taldi, hæstv. forseti, að hún hefði komið þokkalega skýrt fram í mínu fyrra svari. Ég tel að það sé ástæða til þess að taka upp viðræður um það með hvaða hætti við viljum skilgreina leikskólann, hvort við viljum skilgreina hann sem hluta af skólaskyldu og þá þar með hljótum við að taka til umsagnar og umfjöllunar gjaldtöku í þeim skólaskylda skóla ef til kæmi og þá með hvaða hætti staðið yrði undir henni.

Eins og kom fram í mínu fyrra svari er þessi umræða rétt á fyrstu stigum. Um hugmyndina hafa ekki farið fram alvarlegar viðræður, a.m.k. ekki milli ríkis og sveitarfélaga. Það kann hins vegar vel að verða.

Ég lýsti því líka hér þaðan, hæstv. forseti, að það er stefna Framsóknarflokksins að koma á, a.m.k. á efsta ári leikskólans, skólaskyldu. Það er mín stefna líka, hv. þingmaður. Hins vegar þarf auðvitað að nást um þetta sátt, ekki bara hér á Alþingi eða í ríkisstjórn heldur við sveitarfélögin í landinu og þetta er mál sem við hljótum að halda áfram að ræða.