131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Öryggislögregla.

390. mál
[13:54]

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Eftir að hæstv. dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóri ásamt fleirum fóru til Bandaríkjanna sl. vor til að kynna sér m.a. hvernig þar er starfað að öryggismálum hélt hæstv. dómsmálaráðherra ræðu á fundi sýslumanna í Vestmannaeyjum hinn 8. október sl., ræddi þar m.a. og færði rök fyrir því að auka þyrfti rannsóknarheimildir lögreglu og ýjaði jafnvel að því að með einhverjum hætti þyrfti að fara fram hjá réttarfarsnefnd í þeim efnum, en fjallaði einnig um starfsemi öryggislögreglu eða leyniþjónustu.

Nú hefur út af fyrir sig verið fjallað um slíka starfsemi á opinberum vettvangi áður og við höfum nýlega fjallað ákaflega mikið um það, m.a. í tengslum við svokallað Falun Gong mál, en þar reyndist sá þáttur í starfsemi lögreglunnar kannski að ýmsu leyti vanbúinn. Það hversu illa við réðum við þá einu heimsókn og hversu skammarlega stjórnvöld stóðu að í því efni sýnir kannski að þarna sé átaks þörf.

Hæstv. dómsmálaráðherra lýsti því yfir að ekki mætti miklu lengur láta undir höfuð leggjast að ræða lagafrumvarp hér á Alþingi um starfsemi öryggislögreglu eða leyniþjónustu. Ég fagna yfirlýsingu dómsmálaráðherra um að setja þurfi lög um öryggislögreglu eða leyniþjónustu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við skýrum lagaramma um þessa starfsemi og að aðhald og eftirlit með henni sé eins og best verður á kosið. Ég hafna því hins vegar ef hér er ætlunin að leiða í lög auknar rannsóknarheimildir eða leynd fyrir lögreglu með svipuðum hætti og gert hefur verið með tilvísun til hryðjuverkaógnarinnar í Bretlandi og Bandaríkjunum á síðustu árum. Ég tel að við þurfum síst á því að halda að auka leynd eða rannsóknarheimildir í þessum efnum. Full ástæða er hins vegar til þess, eins og ráðherrann hefur vakið athygli á, að á Alþingi sé rætt um lagafrumvarp um öryggislögreglu eða leyniþjónustu og ég vil með fyrirspurn þessari gefa hæstv. ráðherra kost á því að ræða um það lagafrumvarp.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji að lagaheimildir fyrir starfsemi öryggislögreglu eða leyniþjónustu skorti og hvort hann hyggist á þessu kjörtímabili bæta úr því með lagafrumvarpi.

Í öðru lagi hvort hann telji tilefni til þess að hér sé starfrækt sérstök öryggislögregla eða leyniþjónusta, hvert umfang þessarar starfsemi sé og hvort ráðherrann hyggist beita sér fyrir aukningu á umfangi hennar.

Síðast en ekki síst, og ég legg mikla áherslu á þann þátt fyrirspurnarinnar: Með hvaða hætti er eftirliti með þessari viðkvæmu starfsemi háttað?