131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Öryggislögregla.

390. mál
[13:57]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki hvaða ræðu hv. þingmaður las eftir mig sem hann telur mig hafa flutt í Vestmannaeyjum 8. október þegar hann segir í upphafi máls síns að ég hafi ætlað að fara á svig við réttarfarsnefnd vegna endurskoðunar á lögum um meðferð opinberra mála. Ég veit ekki hvaðan þingmaðurinn hefur það efni.

Varðandi þær spurningar sem þingmaðurinn leggur fyrir er sú fyrsta:

„Telur ráðherra að lagaheimildir skorti fyrir þeirri öryggislögreglu- og leyniþjónustustarfsemi sem starfrækt er hjá ríkislögreglustjóra? Hyggst ráðherra bæta úr með lagafrumvarpi um starfsemina?“

Samkvæmt 5. gr. lögreglulaga er hlutverk ríkislögreglustjóra m.a. að „starfrækja lögreglurannsóknardeild sem rannsakar landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess“. Í helstu nágrannalöndum okkar er verkefnum af þessu tagi sinnt af lögreglu en iðulega af sérstakri deild eða sérstakri öryggislögreglu sem starfar á grundvelli skýrra lagaheimilda og jafnvel sérstakrar löggjafar. Á það hefur verið bent að skortur á slíkri löggjöf geti vakið upp spurningar um heimildir lögreglu til aðgerða og eftirgrennslana með málum af þessum toga og nauðsynlegt sé að eyða slíkri óvissu með skýrri löggjöf, bæði til hagsbóta fyrir þá sem starfa á grundvelli hennar og almenning í landinu. Ekki liggur fyrir nein ákvörðun um það hvernig úr þessu verður bætt.

Þá er spurt:

„Telur ráðherra koma til greina að starfrækja sérstaka öryggislögreglu?“

Eins og áður sagði er þessum verkefnum að sjálfsögðu sinnt hér á landi eins og annars staðar. Hvort setja eigi þau undir hatt sérstakrar öryggislögreglu hér, eins og gert er t.d. annars staðar á Norðurlöndunum, hefur ekki verið rætt en þörfin fyrir það virðist ekki vera sérstaklega brýn. Það sem á hefur verið bent er að skýr ákvæði þurfa að vera um heimildir og eftirlit með þessari mikilvægu starfsemi.

Þá er spurt:

„Hvert er umfang þessarar starfsemi? Fer hún vaxandi eða stefnir ráðherra að því að auka umsvif hennar?“

Umfang þessarar starfsemi hefur verið óbreytt undanfarin ár en jókst eins og kunnugt er nokkuð í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum árið 2001. Engin sérstök áform eru uppi um að auka umsvif hennar.

„Hvernig er eftirliti með öryggislögreglu- og leyniþjónustustarfsemi háttað?“ er að lokum spurt.

Eftirliti með starfsemi lögreglu er í dag sinnt lögum samkvæmt af dómsmálaráðuneyti, auk þess sem ríkissaksóknari fer með eftirlit með ákæruvaldinu.