131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Öryggislögregla.

390. mál
[14:00]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þau orð hæstv. dómsmálaráðherra að öryggislögreglan sé hér til án þess í raun og veru að hafa neinn þokkalegan lagaramma vekja auðvitað athygli og um leyniþjónustuna svaraði ráðherrann engu. Ráðherrann talaði hins vegar um í þeirri merkilegu ræðu sem áður var á minnst að það væri erfitt að komast yfir, með leyfi forseta, „skilningsþröskulda“ í umræðum um öryggismál á Íslandi og ég held að það sé rétt hjá ráðherranum. Einar Karl Haraldsson, félagi minn og okkar ýmissa, hefur orðað þetta svo að hér hafi verið tvær hefðir uppi í þessari umræðu, annars vegar þagnarhefðin og hins vegar upphrópunarhefðin. Ég held að nú sé kominn tími til að leggja þessar hefðir niður, að ræða þessi mál öll opið, að setja lagastoð undir þá starfsemi sem við erum sammála um að hafa hér og almenningur getur fylgst með og þingið eða aðrar slíkar stofnanir hafa eftirlit með. Ég tel að þagnarhefðarmenn (Forseti hringir.) ættu að byrja að tala og þá skulu upphrópunarhefðarmenn byrja að láta ekki upphrópanirnar nægja heldur finna málum sínum efnislega stöðu. (Forseti hringir.) Við skulum ræða um þetta á nýjum grunni framvegis.

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutíma sem er ein mínúta í þessari umræðu.)