131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Öryggislögregla.

390. mál
[14:01]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að skoða þetta mál og þessa umræðu í aðeins stærra samhengi. Ég vil vekja athygli þingheims og þjóðarinnar á því hvert við erum eiginlega að stefna og setja málið og umræðuna í ákveðið samhengi.

Við höfum tekið eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hefur komið með hvert málið á fætur öðru sem orkar svo sannarlega tvímælis. Hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp í fyrra sem laut að því að heimila hleranir án dómsúrskurðar. Hæstv. dómsmálaráðherra lagði sömuleiðis fram í fyrra afar vont frumvarp um fangelsismál sem hann neyddist til að draga til baka. Hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp að mjög afturhaldssömum og íhaldssömum lögum um útlendinga og þar á meðal hina vondu 24 ára reglu. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur beitt sér fyrir að auka fjárveitingar til að fjölga sérsveitarmönnum og nú er umræða um hugsanlega leynilögreglu. Ég vil bara brýna það fyrir fólki að yfirleitt fer frelsið ekki allt í einu, það fer hægt og rólega og oft er það réttlætt með góðum tilgangi. Við þurfum að vera á varðbergi þegar kemur að eftirliti og skerðingu á persónuréttindum. Því held ég að full ástæða sé til að þingheimur og þjóð verði sérstaklega á varðbergi þegar kemur að þingmálum „stóra Björns“.