131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Öryggislögregla.

390. mál
[14:03]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra svaraði fyrstu spurningunni sem fjallaði um það hvort ráðherra teldi að lagaheimildir skorti fyrir þeirri öryggisgæslu og leyniþjónustustarfsemi sem starfrækt er hjá ríkislögreglustjóra og hvort hann hygðist bæta úr því á þann veg að ekki var hægt að misskilja það að hann taldi þörf á skýrari lagafyrirmælum um þau atriði, en hann sagði líka að það væru ekki uppi nein áform um að leggja slíkt fram. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni ef hæstv. ráðherra sér brýna þörf á einhverjum ráðstöfunum sem þyrfti að færa í lagabúning á hv. Alþingi en sér ekki ástæðu til að koma með slíkan lagaramma inn til umræðu. Það er ástæða til að spyrja hvers vegna. Telur hæstv. ráðherra að hugmyndir hans í þessum efnum eigi ekki hljómgrunn á hv. Alþingi eða hvað er það sem dvelur?