131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Öryggislögregla.

390. mál
[14:05]

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætlast til þess af hæstv. dómsmálaráðherra að ef hann telur eins og hér hefur fram komið að lagarammi um jafnmikilvæga starfsemi og öryggislögreglu og leyniþjónustustarfsemi á vegum ríkisins sé ekki nægilega skýr þá sé það einbeittur vilji hans að bæta úr því og hann boði okkur það að úr því verði bætt. Það er auðvitað alls ekki viðunandi að hæstv. dómsmálaráðherra sinni embættisskyldum sínum með þeim hætti að hann telji á skorta um lagaramma um jafnmikla kjarnastarfsemi í réttarfari í landinu og leyniþjónustustarfsemi og öryggislögreglu en ætli ekki að bæta úr því. Ég fagna því hins vegar að ráðherrann hefur ekki uppi áform um sérstaka leyniþjónustu eða sérstaka öryggislögreglu og að ekki standi til að auka við þá starfsemi hjá ríkislögreglustjóra því ég held að á því sé ekki nein sérstök þörf og tek undir með hæstv. dómsmálaráðherra að það er ekki tilefni til þess. Það er heldur ekki tilefni til að auka heimildir lögreglu í þessu heldur þvert á móti að veita þessari starfsemi frekara aðhald og eftirlit, eins og Falun Gong málið sýndi svo ágætlega, með því einmitt að skýra lagarammann og treysta það eftirlit sem er með þessari starfsemi. Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann telji koma til greina að þingnefnd hafi eftirlit með þessari starfsemi með höndum þannig að hún hafi það aðhald sem vert er.